Undirritun samnings vegna skimunar krabbameins í ristli og endaþarmi
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Kristján Oddsson, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, undirrituðu í dag samkomulag um undirbúning skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hjá aldurshópnum 60 – 69 ára. Stefnt er að því að hefja skimun í byrjun næsta árs. Velferðarráðuneytið leggur 25 m.kr. til verkefnisins og Krabbameinsfélagið 20 m.kr. en áætlaður heildarkostnaður er 45 m.kr.
Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið á heimsvísu og önnur algengasta ástæða dánarmeina af völdum krabbameins á Vesturlöndum, líkt og fram kemur í meðfylgjandi greinargerð. Á árunum 2006 til 2010 greindust að meðaltali 74 karlar og 60 konur á ári á Íslandi með þessa tegund krabbameins og var meðalaldur við greiningu um 70 ár.
Hér á landi hefur verið stefnt að því nokkuð lengi að hefja reglubundna skimun fyrir þessum meinum og árið 2007 samþykkti Alþingi ályktun um að fela heilbrigðisráðherra í samráði við landlækni að hefja undirbúing að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.
Í fyrra fól heilbrigðisráðherra Krabbameinsfélaginu að leggja fram tillögur um hvernig standa mætti að undirbúningi og innleiðingu hópleitar að krabbameinum í ristli. Þann 31. ágúst 2015 skilaði Krabbameinsfélagið ráðherra samantekt með tillögum sínum, ásamt viðamikilli greinargerð dr. Sunnu Guðlaugsdóttur, sérfræðings í meltingarsjúkdómum og verkefnisstjóra hjá Krabbameinsfélaginu þar sem færð eru rök fyrir mikilvægi skimunar, settar fram tillögur um hvernig best verði að henni staðið og fjallað um nauðsynlegan undirbúing sem þarf að sinna svo unnt sé að koma slíkri leit í framkvæmd. Greinargerðina vann Sunna í samráði við velferðarráðuneytið og Embætti landlæknis.
Samkvæmt samningnum sem undirritaður var í dag mun Krabbameinsfélag Íslands hefja undirbúning að því að tekin verði upp skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hjá aldurshópnum 60 – 69 ára. Gert er ráð fyrir að undirbúingsvinnunni verði lokið í byrjun október 2016 og að reglubundin skimun geti hafist í byrjun árs 2017. Undirbúningsvinnan felur í sér:
- Kaup á greiningartæki og öðrum búnaði
- Forritun þriggja gagnagrunna og uppfærsla/breyting á sjúkrasrkárkerfum
- Vinna læknis á undirbúningstímanum
Mikilvægur áfangi í forvarnar- og lýðheilsumálum
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir samninginn sem undirritaður var í dag marki tímamót og sé mikilvægur áfangi í forvarnar- og lýðheilsumálum: „Viljinn til að hefja skimun fyrir þessum hættulega sjúkdómi hefur lengi legið fyrir. Nú sjáum við til lands því verkefnið er komið á framkvæmdastig, markviss undirbúingur hafinn og við reiknum með að reglubundin skimun hefjist í byrjun næsta árs. Krabbameinsfélag Íslands á stóran þátt í að þessum áfanga sé náð og ég vil því nota tækifærið til að færa því góða félagi mínar bestu þakkir fyrir.“