Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2016 Dómsmálaráðuneytið

Drög að breytingu á lögum um eftirlit með störfum lögreglu til umsagnar

Drög að frumvarpi til breytingar á lögreglulögum sem fjallar um eftirlit með störfum lögreglu eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Með drögunum eru tillögur nefndar innanríkisráðherra um meðferð kvartana og kærumála á hendur lögreglu færðar í frumvarpsform. Unnt er að senda ráðuneytinu umsögn um drögin til og með 23. febrúar og skulu þær berast á netfangið [email protected].

Innanríkisráðherra skipaði í byrjun síðasta árs nefnd til að fjalla um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu. Í nefndinni áttu sæti þau Sigurður Tómas Magnússon prófessor, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, Daði Kristjánsson saksóknari, Páll Heiðar Halldórsson lögfræðingur og Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari, sem jafnframt var skipuð formaður nefndarinnar. Með nefndinni starfaði Margrét Kristín Pálsdóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu.

Nefndin skilaði ráðherra tillögum sínum í nóvember og leggur hún til að ráðherra skipi þriggja manna eftirlitsnefnd með störfum lögreglu sem hafi það verkefni að taka við erindum frá borgurunum, yfirfara þau og greina hvort um sé að ræða kæru um refsiverða háttsemi eða kvörtun er lúti að starfsaðferðum lögreglu. Skal nefndin koma slíkum erindum í viðeigandi farveg. Þá lagði nefndin einnig fram drög að breytingum á lögum sem nauðsynlegar eru með hliðsjón af þessum tillögum.

Megin tillögur nefndarinnar eru þær að VII. kafli lögreglulaga nr. 90/1996 verði gerður mun ítarlegri og að heiti hans verði: Kærur og kvartanir á hendur lögreglu. Helstu tillögur nefndarinnar eru:

  • Ráðherra skipi þriggja manna stjórnsýslunefnd, eftirlitsnefnd með störfum lögreglu, sem hafi það verkefni að taka við erindum frá borgurunum, yfirfara þau og greina hvort um sé að ræða kæru um refsiverða háttsemi eða kvörtun er lúti að starfsaðferðum lögreglu.
  • Nefndin komi erindum í viðeigandi farveg, hvort heldur er hjá héraðssaksóknara/ríkissaksóknara, viðkomandi lögreglustjóra eða ríkislögreglustjóra. Þessum embættum beri jafnframt að tilkynna nefndinni um kærur og kvartanir sem berast embættunum beint frá borgurum og tilkynna nefndinni um niðurstöður mála þegar þær liggja fyrir. Með því verði tryggt að erindi borgarans verði tekið til viðeigandi skoðunar og meðferðar. Ekki er gert ráð fyrir því að nefndin taki beinan þátt í meðferð máls sem hún beinir annað. Hins vegar geti hún komið á framfæri athugasemdum við málsmeðferðina og niðurstöðu málsins ef tilefni þykir til.
  • Nefndin verði skipuð þremur nefndarmönnum, einum tilnefndum af Lögmannafélagi Íslands, öðrum af Mannréttindaskrifstofu Íslands en sá þriðji verði skipaður af innanríkisráðherra og verði hann jafnframt formaður nefndarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta