Ráðherra heimsótti Grunnskólann í Borgarnesi
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra heimsótti Grunnskólann í Borgarnesi í gær í tilefni af því að Gleðileikarnir fengu foreldraverðlaun Heimilis og skóla í maí síðastliðnum.
Eva Hlín Alfreðsdóttir kynnti Gleðileikana sem er þrautaleikur þar sem nemendum á elsta stigi Grunnskóla Borgarness er skipt niður í hópa sem þurfa að leysa krefjandi verkefni sem ekki eru hluti af þeirra daglega skólalífi. Sjálfstæði og samvinna eru einkunnarorð leikanna og miðast að því að efla samheldni og samstöðu í samfélaginu sem og að gefa þátttakendum tækifæri til þess að spreyta sig á skemmtilegum þrautum. Allir þátttakendur fara heim af leikunum með jákvæð og falleg skilaboð í farteskinu og nýja sýn á eigin styrk og getu.
Að kynningunni lokinni heimsótti ráðherra alla bekki skólans. Fjórði bekkur var með söngatriði og svo kynntu nemendur í tíunda bekk Erasmus verkefnið
Water around us. Loks var boðið upp á bollur í tilefni dagsins.