Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2016 Dómsmálaráðuneytið

Fimmtíu sóttu um hæli í janúar og þar af 7 fylgdarlaus börn

Fimmtíu manns sóttu um hæli á Íslandi í janúar og í lok mánaðarins voru alls 162 umsóknir um alþjóðlega vernd í vinnslu hjá Útlendingastofnun, þar á meðal mál sjö fylgdarlausra barna. Þá voru 79 mál í vinnslu hjá Kærunefnd útlendingamála (geta verið fleiri einstaklingar) og því var alls 241 mál í vinnslu hjá þessum stofnunum.

Alls eru 344 einstaklingar í þjónustu hjá Útlendingastofnun eða sveitarfélögum og af þeim er 151 á vegum Útlendingastofnunar en 193 hjá þremur sveitarfélögum, samkvæmt samningi þeirra við Útlendingastofnun.

Fylgdarlaus börn

Sjö fylgdarlaus börn hafa sótt um vernd á Íslandi undanfarnar vikur. Fjögur þeirra eru frá Afganistan, eitt frá Sýrlandi, eitt frá Vestur-Sahara og eitt frá Albaníu. Þau hafa sagst vera á aldrinu fjórtán til sautján ára en eftir aldursgreiningu hafa fjögur barnanna reynst vera 17 til 18 ára. Börnin sóttu um hæli í Reykjavík og í samvæmi við barnaverndarlög á barnavernd á því svæði sem barnið sækir um hæli að taka málið að sér. Þrjú barnanna hafa verið vistuð í móttökumiðstöð Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni Hafnarfirði en viðræður standa yfir við Barnavernd Reykjavíkur um að taka þau að sér.

Á síðasta ári bárust alls 355 hælisumsóknir. Flestir voru frá Albaníu eða 108, 29 frá Sýrlandi, 28 frá Írak, 27 frá Makedóníu, 22 frá Afganistan og færri frá öðrum ríkjum. Lyktir mála á síðasta ári skiptust þannig að 114 var synjað um hæli, 82 var veitt vernd, 80 vísað frá og 47 drógu umsókn tilbaka.

Miðað við stöðuna í Evrópu og aukningu hælisumsókna á Íslandi miðað við fyrri ár er gert ráð fyrir að fjöldi umsækjenda um hæli geti orðið allt uppí 600-800 á þessu ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta