Greind verða umbótatækifæri í þjónustu í málefnum útlendinga
Innanríkisráðherra og félagsmálaráðherra hafa haft til skoðunar ábendingar Ríkisendurskoðunar frá mars 2015 um málefni útlendinga og innflytjenda á Íslandi. Lagt er til að farið verði í sameiginlegt verkefni á vettvangi stjórnarráðsins sem meðal annars lúti að því að skoða margvíslega þætti er varða stjórnsýslu og þjónustu á þessu sviði og greina umbótatækifæri í því sambandi. Málið var kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Innflytjendur um 10% mannfjölda á Íslandi
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að í ársbyrjun 2014 hafi um 7% íbúa landsins haft erlent ríkisfang. Sé einnig horft til þeirra einstaklinga af erlendum uppruna sem fengið hafa íslenskan ríkisborgararétt og börn innflytjenda sem fæðast hér á landi voru innflytjendur um 10% landsmanna. Þann 1. janúar 2015 voru fyrstu kynslóðar innflytjendur á Íslandi 29.192, eða 8,9% mannfjöldans. Þetta er nokkur hækkun frá árinu 2012 þegar þeir voru 8% mannfjöldans. Annarri kynslóð innflytjenda hefur einnig fjölgað, voru t.d. nálægt 3.540 árið 2014 en eru nú um 3.850.
Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar er innflytjandi einstaklingur sem fæddur er erlendis og á foreldra sem fæddir eru erlendis en til annarrar kynslóðar teljast einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi en eiga foreldra sem eru innflytjendur.
Útlendingastofnun gaf út 2.914 dvalarleyfi til einstaklinga utan EES árið 2014 og eru dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar tæplega helmingur þeirra en námsmannaleyfi eru næst algengasti dvalarleyfaflokkurinn. Flestir umsækjendur um dvalarleyfi eru frá Bandaríkjunum, Filippseyjum, Tælandi, Víetnam og Kína en vert er að taka fram að EES-borgarar sem hingað koma þurfa ekki að sækja um dvalarleyfi.
Hvað EES-borgara varðar eru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi en 1. janúar síðastliðinn bjuggu hér á landi 10.224 einstaklingar frá Póllandi eða 37,5% allra innflytjenda. Þar á eftir koma Litháar, Danir og Þjóðverjar.
Spár gera ekki ráð fyrir því að úr fólksflutningum dragi á næstu árum; þvert á móti að þeir muni færast í aukana og samkvæmt mannfjöldaspám Hagstofunnar má gera ráð fyrir að fjölgun innflytjenda á Íslandi næstu ár muni vega á móti brottflutningi frá landinu. Gangi þær spár eftir má gera ráð fyrir að hlutfall innflytjenda muni aukast nokkuð næstu árin.
Fleiri flóttamenn fá vernd á Íslandi
Fjöldi þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd (hæli) á Íslandi hefur farið stigvaxandi. Á síðasta ári sóttu 354 einstaklingar um hæli hér á landi en 175 árið 2014. Útlendingastofnun áætlar nú að heildarfjöldi hælisumsókna í ár geti orðið 600 til 800; í janúarmánuði einum sóttu um 50 manns um hæli. Erfitt er þó að gera nákvæmar áætlanir í þessum efnum en áætlað er að um 1,5 milljón hælisleitenda muni koma til Evrópu á þessu ári.
Aukin fjölgun hælisumsókna þýðir að fleiri útlendingar fá heimild til dvalar hér á landi en áður. Árið 2014 fengu 43 einstaklingar vernd eða mannúðarleyfi en árið 2015 fengu 80 leyfi til dvalar, þarf af fengu 64 vernd og 16 einstaklingar mannúðarleyfi.
Ef tekið er mið af fjölgun hælisumsókna má gera ráð fyrir að fleirum verði veitt vernd á þessu ári.
Þörf á heildstæðri greiningu og mati á gæðum
Ríkisendurskoðun bendir í skýrslu sinni á fjölmörg atriði sem þyrfti að skoða til að bæta lagaumhverfi, stjórnsýslu og skipulag þegar kemur að málefnum innflytjenda og flóttafólks hér á landi, t.d. varðandi móttöku flóttafólks og hælisleitenda, málsmeðferð og málshraða, réttindamál, stuðning og fleira. Einnig bendir Ríkisendurskoðun á að skjóta þurfi styrkari stoðum undir þá þætti sem eiga að tryggja farsæla þátttöku innflytjenda í íslensku samfélagi, m.a. íslenskukennslu, túlkaþjónustu, tækifæri til atvinnuþátttöku og er með framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda komið til móts við þær ábendingar.
Þá hefur umræða sem fram hefur farið á vettvangi ráðherranefndar um málefni flóttamanna og innflytjenda auk ábendinga Ríkisendurskoðunar gefið fullt tilefni til að þessi mál séu skoðuð heildstætt.
Tillaga um sameiginlegt verkefni stjórnarráðsins
Því er lagt til að innanríkisráðherra og félagsmálaráðherra verði falið að leita eftir samstarfi við sérfræðinga á þessu sviði en hlutverk þeirra yrði eftirfarandi:
- Að fylgja eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar og meta eftir atvikum þörf fyrir frekari umbætur svo tryggja megi farsæla aðlögun innflytjenda hér á landi svo og stjórnsýslunnar og auðvelda möguleika innflytjenda til að nýta réttindi sín og vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í því sambandi verði kannað hvort leggja þurfi til breytingar á verkefnaskiptinu ráðuneyta og stofnana til að tryggja samþættari og skilvirkari stjórnsýslu sem og betri þjónustu.
- Að vinna greiningu á verkefnum er ýmsar stofnanir og þjónustukerfi standa frammi fyrir vegna aukins fjölda innflytjenda á Íslandi. Fjölmargir þættir kæmu í því sambandi til skoðunar sem varða m.a. velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu, húsnæðiskerfið, menntakerfið, réttarvörslukerfið og atvinnumarkaðinn. Í þessu sambandi væri rétt að horfa einnig á fjárlaga- og kostnaðartengda þætti.
- Að kanna hvernig staðið er að rannsóknum og öflun upplýsinga um hvernig innflytjendum, ekki síst flóttafólki, hafi vegnað í íslensku samfélagi með tilliti til menntunar, atvinnumöguleika, félagslegrar þátttöku og heilbrigðisþátta.
Jafnframt verði komið á fót teymi skipuðum fulltrúum ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem vinni að verkefninu með þeim sérfræðingum sem til verksins veljast.
Lagt er til að veittar verði 10 milljónir króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar í verkefnið sem yrði unnið á tímabilinu mars til júlí 2016. Afurð verkefnisins yrði greinargerð með tillögu að aðgerðum til ríkisstjórnar, sem jafnframt myndi nýtast með beinum hætti varðandi framkvæmd og eftirfylgni framkvæmdaáætlunar um málefni innflytjenda.