Menntunlögreglumanna verði færð á háskólastig
Markmiðið í menntunar- og þjálfunarmálum lögreglunnar er að tryggja að lögreglan geti tekist á við mikilvægustu verkefni sín; að tryggja réttaröryggi borgaranna og grundvallarhagsmuni ríkisins. Mikilvægt er að lögreglan hafi góða þekkingu á þeim kröfum og leggi sig fram í hvívetna við vandasöm störf.
Með lagafrumvarpinu er stefnt að því að innleiða þær breytingar sem lagðar eru til í skýrslu starfshóps um innihald lögreglunáms frá júní 2015 með hliðsjón af skýrslu starfshóps um framtíðarskipan lögreglumenntunar frá september 2014. Voru þær breytingar útfærðar að höfðu samráði við fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Víðir Reynisson lögreglufulltrúi var ráðinn verkefnastjóri við undirbúninginn.
Í frumvarpinu er lögð til ný skipan lögreglumenntunar hér á landi.
- Í fyrsta lagi er lagt til að menntun lögreglu verði færð á háskólastig til samræmis við það fyrirkomulag sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum þar sem boðið er upp á lögreglunám á háskólastigi eða í sérstökum lögregluskólum á háskólastigi.
- Í öðru lagi er lagt til að sett verði á stofn mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu innan embættis ríkislögreglustjóra og að Lögregluskóli ríkisins verði lagður niður. Hlutverk mennta- og starfsþróunarsetursins verði að sjá um starfsnám lögreglunema sem og að sinna fræðslustarfi og endurmenntun.
Að loknu umsagnarferli fer frumvarpið til lokavinnslu og er stefnt að því að Alþingi fái frumvarpið til þinglegrar meðferðar á vorþingi.
Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er gert ráð fyrir að þeir sem stunda nám við Lögregluskóla ríkisins við gildistöku laganna eigi rétt á að ljúka því námi miðað við gildandi námsskipulag og skal því vera lokið fyrir 30. september. Þá telst Lögregluskóli ríkisins formlega lagður niður frá og með 30. september næstkomandi.
Leitað var til allra háskóla á landinu til að kanna vilja og möguleika þeirra til að taka þátt í þróun lögreglunáms á háskólastigi. Ráðuneytinu bárust svör frá eftirtöldum aðilum þar sem lýst var yfir áhuga á að annast kennslu lögreglufræða á háskólastigi: Háskóla Íslands í samstarfi við Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri.