Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýrslur um næringarefni í Mývatni og Þingvallavatni

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur birt skýrslur sem það lét vinna um mat á ákomu og afrennsli niturs og fosfórs fyrir Mývatn og Þingvallavatn.

Í skýrslunum eru dregnar saman bestu fáanlegu upplýsingar um innstreymi næringarefna í vötnin og gerð grein fyrir hlut einstakra uppsprettna. Innstreymi næringarefna getur haft mikil áhrif á vistkerfi Mývatns og Þingvallavatns, sem hafa hátt verndargildi og verndarstöðu. Yfirlit yfir uppsprettur niturs (köfnunarefnis) og fosfórs getur því gagnast við ákvörðunartöku og forgangsröðun stjórnvalda og annarra við vernd vatnanna og framkvæmdir sem kunna að hafa áhrif á þau.

Í skýrslunum er lagt mat á innstreymi niturs og fosfórs af náttúrulegum uppruna og af mannavöldum, meðal annars með lindarvatni, loftborinni ákomu, skólpi, landbúnaði og áburðargjöf. Samanburður er gerður á innstreymi næringarefnanna í vötnin og tapi næringarefna úr vatninu með afrennsli og við setmyndun.

Niðurstöður úr skýrslunum eru meðal annars þessar:

Heildarinnstreymi fosfórs í Mývatn er 52 tonn á ári. Fosfór berst að langmestu leyti í vatnið með lindum eða 51 tonn. Innstreymi niturs í Mývatn er um 80 tonn á ári. Vatnið hefur þá sérstöðu að í því eru blágrænar bakteríur sem binda nitur úr andrúmslofti og bæta sér þannig upp niturþurrð sem er algeng í vatninu. Þessi binding nemur um 200 tonnum á ári (miðað við árið 2000). Heildarmagn niturs sem berst með innstreymi og við bindingu er því um 280 tonn á ári. Af innstreymi niturs í Mývatn, 80 tonn á ári, eru lindir stærsta uppsprettan eða 84%. Losun frá landbúnaði nemur 7,5%, loftborin ákoma niturs 5%, losun frá ferðaþjónustu 2% og losun frá íbúum 1,5%.

Heildarinnstreymi fosfórs í Þingvallavatn er 85 tonn á ári. Fosfór berst að langmestu leyti í vatnið með lindum og ám, eða 83 tonn. Innstreymi niturs í Þingvallavatn er um 296 tonn á ári sem er meira en áður var talið. Um 90% nitursins berst með lindum og ám en um 7% kemur úr lofti með úrkomu. Nitur sem berst í vatnið vegna áburðarnotkunar nemur 1,7%, niturlosun vegna íbúa, starfsemi og sumarhúsa 0,7% og losun niturs vegna ferðamennsku og iðnaðarstarfsemi 0,3% hvort. Miklar sveiflur milli mælinga og ára má sjá í styrk niturs í lindum við Þingvallavatn, í útfallinu og í Sogi. Vegna þessara sveiflna er ekki hægt að draga þá ályktun að ákoma með lindum hafi breyst frá árinu 1975.

Mývatn – ákoma og afrennsli (pdf-skjal)

Þingvallavatn – ákoma og afrennsli (pdf-skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta