Drög að breytingu á loftferðalögum til umsagnar
Drög að breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998 með síðari breytingum, eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Unnt er að senda ráðuneytinu athugasemdir til og með 7. mars næstkomandi og skulu þær sendar á netfangið [email protected].
Með drögunum eru lagðar til breytingar á loftferðarlögum vegna væntanlegrar innleiðingar tveggja EES-gerða hér á landi, þ.e. reglugerð (ESB) nr. 376/2014 og reglugerð (ESB) 2015/340. Sú fyrrnefnda fjallar um tilkynningu atvika í almenningsflugi sem og greiningu og eftirfylgni með þeim og hin síðari um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð vegna skírteina og vottorða flugumferðarstjóra.
Tilkynningarskylda
Með drögunum er lögð til breyting á ákvæði loftferðarlaga um skyldu til tilkynningar atvika. Breytingin miðar að því að samræma ákvæði loftferðalaga við reglugerð (ESB) nr. 376/2014 og skýra betur hvert beina skuli tilkynningu.
Valfrjálsar tilkynningar
Ein nýmæli reglugerðar (ESB) nr. 376/2014 eru að fyrirtæki skulu koma á laggirnar tilkynningarkerfi fyrir valfrjálsar tilkynningar. Með því geta þeir sem ekki falla undir tilkynningarskyldu komið upplýsingum á framfæri um atvik sem þeir verða varir við. Auk þess geta þeir sem bera tilkynningarskyldu komið upplýsingum á framfæri um önnur atvik.
Gagnagrunnar og vinnsla upplýsinga
Með drögunum er mælt fyrir um gagnagrunna þar sem geyma skal tilkynningar og um vinnslu þeirra. Lagt er til að fyrirtæki greini þær upplýsingar sem þeim berast og ákveði og grípi til viðeigandi aðgerða ef þörf er á.
Sanngirnismenning
Reglugerð (ESB) nr. 376/2014 miðar að því að undirbyggja sanngirnismenningu innan fyrirtækja í fluggeiranum. Því er mælt fyrir um það að fyrirtækjum sé óheimilt að láta starfsfólk, sem tilkynnir um atvik eða sem tilgreint er í tilkynningu, sæta viðurlögum á grundvelli upplýsinganna. Þá er einnig lagt til að óheimilt sé að beita starfsfólki viðurlögum ef það leitar til Samgöngustofu vegna meintra brota fyrirtækis á skyldum sínum.
Ákvæði um flugumferðarstjóra
Að lokum er lagt til að ákvæði loftferðarlaga, sem mælir fyrir um hámarksaldur flugumferðarstjóra, sé fellt brott og er það gert vegna væntanlegrar innleiðingar reglugerðar (ESB) 2015/340.