Heilbrigðisráðherra kynnir úrbætur í heilsugæslu
Fjármögnun heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verður breytt þannig að fjármagn til reksturs endurspegli þann sjúklingahóp sem viðkomandi heilsugæslustöð þjónar. Markmiðið er að færa inn í rekstur heilsugæslunnar faglega og fjárhagslega hvata sem stuðli að betri þjónustu, hagkvæmari rekstri og geri heilsugæslunni kleift að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur síðustu daga kynnt breytingar sem gerðar verða á rekstrarumhverfi heilsugæslunnar í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins, þ.e. í Reykjavík, Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Ráðherra hélt kynningarfund með fjölmiðlum í dag en hafði áður átt fundi þar sem breytingarnar voru m.a. kynntar fagfólki í heilbrigðisþjónustunni.
Grundvallarforsendur endurbótanna felast í gjörbreyttu fyrirkomulagi við fjármögnun þjónustunnar þar sem markmiðið er að umbuna fyrir skilvirka og góða þjónustu í samræmi við þarfir notenda. Fjármögnun allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu mun byggjast á sömu forsendum óháð rekstarformi. þannig að allir sitji við sama borð, hvort sem reksturinn er opinber eða á hendi einkaaðila. Stefnt er að því að sambærilegt fjármögnunarkerfi verði innleitt á landsvísu þegar frá líður.
Fjárframlög ráðast af þörfum notendahópsins
Nýtt fjármögnunarkerfi byggist á þekktri aðferð sem þróuð hefur verið og notuð m.a. víða í Svíþjóð. Aðferðin byggist á því að hópurinn sem skráður er hjá viðkomandi heilsugæslustöð er skilgreindur eftir líklegri þörf fyrir þjónustu. Ef hlutfall aldraðra er t.d. hátt í þjónustuhópi heilsugæslustöðvar, eða hátt hlutfall einstæra foreldra eða öryrkja hefur það áhrif á fjárframlög til stöðvarinnar. Þannig tekur fjármögnunin mið af ýmsum þekktum breytum sem vitað er að hafa áhrif á kostnað við þjónustu heilsugsæslustöðva. Í þessu felst að heilsugæslustöð fær meira greitt fyrir sjúkling sem er t.d. aldraður með þunga sjúkdómsbyrði heldur en þann sem er á besta aldri og almennt við góða heilsu.
Miðað er við að 90% fjármögnunarinnar taki mið af breytum sem að framan er lýst en 10% ráðist af þáttum sem snúa að gæðum veittar þjónustu sem metin er samkvæmt skilgreindum mælikvörðum. Ef sjúklingar halda ekki tryggð við heilsugæslustöðina þar sem þeir eru skráðir heldur leita annað flytjast framlög með þeim þangað sem þeir sækja sér þjónustu. Eitt af markmiðum þessa fyrirkomulags er að skapa heilsugæslustöðvum hvata til að þjóna sjúklingum sínum vel og vilja til að halda þeim hjá sér, hvort sem þeir eru með mikla þjónustuþörf eða ekki.
Heilbrigðisráðherra segir lengi hafa verið ljóst að heilsugæslan geti ekki að óbreyttu staðið undir því hlutverki sem sátt er þó um að hún eigi að þjóna, þ.e. að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Ýmsir annmarkar séu augljóstir, s.s. of löng bið eftir tíma hjá heilsugæslulækni, hluti notenda eigi ekki kost á heimilislækni og m.a. af þessum ástæðum skorti yfirsýn og eftirfylgni með sjúklingum. Þetta valdi því að sjúklingar leiti annað eftir þjónustu og þá sé um dýrari úrræði að ræða á hærra þjónustustigi, þ.e. hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum og á bráðamóttöku sjúkrahúsa.
Ráðherra segir ástæðurnar fyrir vanda heilsugæslunnar margþættar en helst séu nefndir þættir eins og skortur á fjármunum, skortur á menntuðum heilsugæslulæknum , hár meðalaldur þeirra og lítil nýliðun, skortur á þverfaglegu samstarfi með aðkomu heilbrigðisstarfsfólks með fjölbreyttari menntun og þekkingu, mönnunarvandi, ósveigjanlegt rekstrarumhverfi og skortur á faglegum og fjárhagslegum hvötum. Með þeim breytingum sem nú verði ráðist í eigi að taka á þessum vanda segir heilbrigðisráðherra:
„Við ætlum með þessu að skapa skilyrði í heilsguæslunni sem leiða til aukins sveigjanleika og ýta m.a. undir aðkomu fleiri heilbrigðisstétta með ríkari áherslu á teymisvinnu og þverfaglegt samstarf. Þannig verði til innan heilsugæslunnar jafnt faglegir og fjárhagslegir hvatar sem ýta undir að þekking á ólíkum sviðum heilbrigðisþjónustu sé nýtt sem best og gerir heilsugæsluna að áhugaverðum vinnustað“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Nýtt fjármögnunarkerfi tryggir jafnræði með ólíkum rekstrarformum
Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu er að mestu leyti rekin af ríkinu og fjármögnuð af fjárlögum, utan tvær einkareknar heilsugæslustöðvar sem reknar eru á grundvelli samninga við ríkið. Framlög til rekstrar eru því ólík eftir rekstarformum. Með breytingunum verður fjármögnunin byggð á sama kerfi, óháð rekstarformi. Gerð verður krafa um að rekstur heilsugæslustöðva verði annað hvort á hendi opinberrar stofnunar eða félags sem stofnað er um rekstur viðkomandi stöðvar. Slíkt félag skal verða sjálfstæður lögaðili og að meirihluta í eigu heilbrigðisstarfsmanna sem við stöðina starfa, í að minnsta kosti 80% starfshlutfalli að jafnaði.
Áformað er að fjölga heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu um þrjár á þessu ári og hefur Sjúkratryggingum Íslands verið falið að auglýsa eftir rekstraraðilum sem uppfylla kröfur til slíks rekstar samkvæmt kröfulýsingu.
Megináherslur breytinganna:
- Heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu.
- Eitt fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæsluþjónustu óháð rekstrarformi.
- Fjármögnun ræðst af þörfum notendahópsins.
- Fjármagn fylgir notendum.
- Faglegir og fjárhagslegir hvatar til að veita góða þjónustu á hagkvæman hátt.
- Aukinn sveigjanleiki og áhersla á þverfaglegt samstarf heilbrigðisstétta.
- Óbreytt lagaumgjörð varðandi þjónustu heilsugæslunnar, réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsfólk og réttindi sjúklinga.
- Óheimilt verður að taka arð út úr rekstri heilsugæslustöðva.