Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2016 Utanríkisráðuneytið

Áhrif hvalveiða á samskipti Íslands og annarra ríkja

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu um áhrif hvalveiða á samskipti Íslands og annarra ríkja og er litið til þróunar þessarar mála á undanförnum árum með heildstæðum hætti. Er m.a. litið til áhrifa ákvarðana Bandaríkjaforseta um að beita refsiaðgerðum vegna hvalveiða í atvinnuskyni, mats á núverandi stefnu bandarískra stjórnvalda og einnig er litið til þess hvort orðspor Íslands hafi skaðast vegna verslunar með hvalaafurðir. Í skýrslu utanríkisráðherra kemur fram að réttur Íslendinga til hvalveiða hafi verið lífseigt þrætuepli í samskiptum Íslands við aðrar þjóðir og að sú saga nái mörg ár aftur í tímann.

Í skýrslu utanríkisráðherra er dregin sú meginniðurstaða að alþjóðalög og sáttmála beri að virða og ekki sé unnt að véfengja rétt Íslands til að nýta lifandi sjávarauðlindir á borð við hval með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Að sama skapi kemur fram að efnahagslegt mikilvægi veiða á stórhvelum sé hverfandi. Ekki séu haldbærar ástæður til að ætla að óbreytt ástand mála muni hafa meiri áhrif á samskipti Íslands við önnur ríki en verið hafi fram að þessu.

Hins vegar megi draga þá ályktun að seint skapist sátt um hvalveiðar Íslendinga á alþjóðavettvangi miðað við óbreytt ástand, einkum og sér í lagi með tilliti til stórhvalaveiða. Því sé ekki loku fyrir það skotið að með því að draga saman í veiðum á stórhvelum náist aukin sátt um stefnu Íslendinga í þessum málaflokki á alþjóðavettvangi á yfirstandandi kvótatímabili. Þá megi ætla að efnahagslegar forsendur og aðgangur að erlendum mörkuðum verði hafður til hliðsjónar við mat á framhaldi stórhvalaveiða þegar núverandi kvótatímabili lýkur.

Skýrsluna um áhrif hvalveiða má finna á vef Alþingis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta