Hoppa yfir valmynd
4. mars 2016 Forsætisráðuneytið

Bjarni Jónsson - Auðlindaákvæði

Greinin, sem lagt er til, að komi á eftir 78. grein í Stjórnarskrá er svo ómarkviss, að hún er ótækur texti í Stjórnarskrá.  ·  

  • Hvað merkir t.d. að lögum, að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslenzku þjóðinni ?  Þjóðin er ekki lögaðili.  Þýðir þetta þá, að einstaklingar eða lögaðilar með erlent ríkisfang megi ekki samkvæmt Stjórnarskrá lýðveldisins eiga eða fénýta neinn hluta þessara auðlinda ?  Það gæti í sumum tilvikum strítt gegn skuldbindingum Íslands gagnvart ESB/EES.  Þetta ákvæði á ekki heima í skýrri Stjórnarskrá.
  • Ákvæðið um, að „ríkið (hefur) hafi eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna í umboði þjóðarinnar, getur að breyttu breytanda átt heima í almennum lögum, en ekki í stjórnlögum.
  • Spurning er, hvort ákvæðið „náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign“, feli í sér stórfellda þjóðnýtingu ?  Á Íslandi er ríkið nú þegar langstærsti eignaeigandinn.  Að auka þann hlut er alls ekki fallið til að efla lýðræðið í landinu, nema síður sé.  Þetta ákvæði á þess vegna ekkert erindi í Stjórnarskrá.
  • Það er ótrúlegt, að jafnmerkingarlaust ákvæði og hér fer á eftir, skuli vera komið í drög að stjórnlögum landsins.  Það er lögfræðilega gjörsamlega haldlaust, af því að það er algerlega háð huglægu mati á, hvað er „eðlilegt“.  Það gætu verið 300 000 skoðanir í landinu á því, hvað „eðlilegt“ merkir í eftirfarandi loðmullu: „Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimild til nýtingar auðlinda, sem eru í eigu íslenska ríkisins eða þjóðareign“.   

Hér á eftir fer tillaga undirritaðs að grein, sem komi í stað síðast nefndu greinarinnar: 

Sé sýnt fram á það með óyggjandi hætti, að ráðstafnir stjórnvalda hafi leitt til sjálfbærrar nýtingar á tiltekinni auðlind, sem auki heildartekjur af auðlindanýtingunni, þ.e. án tillits til úrvinnslu hráefnis eða hrávöru, þá skal löggjafanum vera heimilt að leggja nýtingargjald á þá aðila, sem nýta auðlindina.  Téð nýtingargjald má þó ekki nema hærri upphæð en 5,0 % af verðmæti hrávörunnar úr auðlindinni.  Andvirði gjaldsins skal ekki renna í ríkissjóð, heldur í sérstakan sjóð, sem nota má til fjárfestinga í búnaði til eftirlits með viðkomandi auðlindanýtingu og rannsóknum á auðlindinni ásamt sveiflujöfnun í greininni samkvæmt nánari lagasetningu þar um. 

Virðingarfyllst,
Bjarni Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta