Fjölmenn rakarastofuráðstefna í Genf
Hugmyndin að baki ráðstefnunni er að virkja karla í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna en fyrsta Rakarastofuráðstefnan var haldin fyrir ári síðan hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Fyrr í vikunni var efnt til rakarastofuráðstefnu hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO) en markmiðið er að halda slíkar rakarastofuráðstefnur í öllum helstu alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að.
Í opnunarávarpi sínu á ráðstefnunni, sagði utanríkisráðherra að jafnréttismál væru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Rakarastofuráðstefnan væri leið til að virkja karla í jafnréttisbaráttu og að kynjahlutföll í alþjóðakerfinu væru skökk. "Það er vitlaust gefið í valdastöður í alþjóðakerfinu og því þarf að breyta", sagði Gunnar Bragi.
Ísland hefur unnið ötullega að því á vettvangi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna að styðja konur, m.a. með því að fylgja eftir ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi sem og að tryggja veg jafnréttismála við innleiðingu heimsmarkmiðanna. "Við þurfum að tryggja að jafnréttismálin verði gegnumgangandi við innleiðingu allra heimsmarkmiðanna,” sagði Gunnar Bragi á ráðstefnunni.
Um 250 manns mættu á viðburðinn sem professor Michael Kimmel stýrði en í pallborði sátu Guy Ryder, framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Roberto Azevedo, framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), Christian Friis Bach, framkvæmdastjóri Efnhagsráðs Evrópu hjá SÞ (UNECE), Kate Gilmore, aðstoðarmannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna og Keith Harper, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Mannréttindaráði SÞ.