Hoppa yfir valmynd
9. mars 2016 Utanríkisráðuneytið

Tuttugu sérfræðingar útskrifaðir frá Sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ á Íslandi

Útskriftarhópurinn - mynd

Tuttugu sérfræðingar frá fjórtán löndum útskrifuðust nýlega eftir sex mánaða þjálfunarnám hjá Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Sérfræðingarnir koma frá sjö Afríkuríkjum, þremur eyríkjum Karíbahafs og fjórum ríkjum Asíu. Af þeim tutttugu sem útskrifuðust voru fimm konur en að jafnaði eru konur um 40% nemenda.

Í ávarpi Stefáns Hauks Jóhannssonar ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytis kom fram að Íslendingar hefðu við undirbúning Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun lagt áherslu á mikilvægi fiskveiða sem undirstöðu fæðuöryggis, næringar og atvinnu í mörgum samfélögum, ekki síst viðkvæmum strandhéruðum og eyjasamfélögum.

„Eins og Heimsmarkmiðin undirstrika skiptir árangur okkar á komandi árum í tengslum við stjórnun á vistkerfum við sjó og sjávarauðlindum gífurlega miklu máli fyrir markmiðin í heild sinni, umhverfi okkar og þar með mannkynið allt,“ sagði Stefán Haukur í ávarpi sínu og vísaði í þátt hafsins í baráttu við að binda endi á fátækt og hungur í heiminum.

Í máli ráðuneytisstjóra kom fram að Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna bjóði upp á einstaka leið til að þjálfa mjög hæfa sérfræðinga frá þjóðum víðs vegar um heiminn. Námið hafi stuðlað að framförum á sviði hafrannsókna og byggt upp þekkingu í fimmtíu þjóðríkjum um heim allan.

Sjávarútvegsskólinn býður upp á sex sérsvið og voru þrjú þeirra kennd í ár; fiskifræði, gæðastjórnun í vinnslu og meðhöndlun fisks, og veiðistjórnun og markaðsmál. Rannsóknarverkefni sérfræðinganna spunnu vítt svið, og tengjast öll verkefnum sem sérfræðingar sinna heima fyrir. Mörg lokaverkefnanna nýtast einnig beint við stefnumótun sjávarútvegs í heimalöndum þeirra.

Frá upphafi hafa 325 sérfræðingar lokið sex mánaða þjálfunarnámi við skólann frá yfir 50 löndum og rúmlega 1100 manns tekið þátt í styttri námskeiðum í samstarfslöndunum. Jafnframt því að styrkja sérfræðikunnáttu í samstarfslöndunum og sjávarútvegsstofnunum, þá leggur skólinn ríkari áherslu á að afla og þróa þekkingu sem nýtist við stefnumótun í sjávarútvegsmálum.


Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er fjármagnaður að mestum hluta af framlögum sem eru hluti af þróunarsamvinnuframlagi Íslendinga. Hann er rekinn af Hafrannsóknastofnun, í nánu samstarfi við Matís, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskólann á Hólum, en auk þeirra koma fjöldi annarra stofnana og fyrirtækja að starfseminni með einum eða öðrum hætti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta