Samráð um áhrif flugsamgangna á loftslagsbreytingar
Evrópusambandið hefur kynnt samráð um aðgerðir til að stemma stigu við áhrifum flugsamgangna á loftslagsbreytingar. Samráðið stendur til 30. maí 2016 og má finna nánari upplýsingar um hvernig unnt er að taka þátt í því á vef ESB.
Tilgangur samráðsins er að safna úr sem flestum áttum reynslu, tillögum og skoðunum sem tengjast bæði alþjóðlegum viðmiðum og stefnu ESB um loftslagsbreytingar og áhrif flugsamgangna á þær. Bent er á stefnu Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) í þessu sambandi og tengsl hennar við kvótakerfi ESB í losunarmálum.
Frá árinu 2012 hefur allt flug til og frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins verið hluti af kvótakerfinu og nær löggjöfin um það til flugfélaga innan sem utan ESB-ríkja. Þó var gefið svigrúm fyrir flug flugfélaga utan Evrópu til ársins 2016. Með ofangreindu samráði er ætlunin að fá fram tillögur um langtímamarkmið um loftslagsbreytingar, tillögur sem verða kynntar á fundi ICAO (General Assembly) síðar á þessu ári og hvernig best sé að þróa losunarkerfið bæði fram til 2020 og eftir þann tíma.