Hoppa yfir valmynd
17. mars 2016 Dómsmálaráðuneytið

Drög að breytingu á lögum um dómstóla til umsagnar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla eru nú til umsagnar hjá ráðuneytinu. Unnt er að senda umsagnir um frumvarpsdrögin á netfangið [email protected] til og með 31. mars 2016. Með frumvarpsdrögunum eru meðal annars vegar lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um dómnefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti dómara og lagt er til að héraðsdómurum verði fjölgað varanlega um fjóra.

Þær breytingar á lögum um dómstóla, nr. 1571998, sem lagðar eru til með frumvarpinu eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi lagt til að nefndarmönnum í dómnefnd sem metur hæfni umsækjenda um embætti dómara verði fjölgað úr fimm í sjö sem og að lögfest verði ákvæði sem tryggir að kynjahlutfall nefndarmanna verði sem jafnast. Lagt er til að þeir tveir nefndarmenn sem við bætast verði tilnefndir annars vegar af Alþingi og hins vegar af Lögfræðingafélagi Íslands. Þá er lagður til áskilnaður um að annar þeirra nefndarmanna sem Alþingi tilnefnir skuli vera löglærður og að hann verði jafnframt formaður nefndarinnar.

Í öðru lagi er lagt til að lögfest verði sú meginregla að dómnefnd greini frá því í umsögn sinni hvaða þremur umsækjendum hún mælir með í dómarastöðu en þó þannig að ef sérstök rök standi til verði nefndinni heimilt að mæla með fleiri eða færri umsækjendum. Skal hún þá rökstyðja það sérstaklega.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði að einungis umsögn dómnefndar um þá umsækjendur sem hún mælir með skuli birt opinberlega. Í því felst breyting frá núverandi fyrirkomulagi þar sem umsögn dómnefndar er birt í heild.

Í fjórða lagi er lagt til að dómurum við héraðsdómstóla verði fjölgað varanlega úr 38 í 42.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta