Ísland fjallar um kynbundið ofbeldi á 60. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna
Í dag stóðu íslensk stjórnvöld, í samstarfi við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Stígamót, fyrir viðburði um kynbundið ofbeldi á kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna í New York. Hátt á annað hundrað manns sótti fundinn. Markmið hans var að miðla þekkingu sem skapast hefur í verkefnum íslenskra stjórnvalda og félagasamtaka sem hafa það að markmiði að draga úr ofbeldi gegn konum og kynferðisofbeldi. Þátttakendur á fundinum voru Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu ásamt Öldu Hrönn Jóhannesdóttur, yfirlögfræðingi hjá embættinu, Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, rithöfundi og aðgerðarsinna og Guðrúnu Jónsdóttur fulltrúa Stígamóta.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir og Alda Hrönn Jóhannsdóttir kynntu samstarfsverkefni embættis lögreglurstjórans og félagsþjónustunnar sem ber yfirskriftina „Að halda glugganum opnum.“ Verkefnið hefur að markmiði að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi með markvissari fyrstu viðbrögðum lögreglu, fækka ítrekunarbrotum, bæta tölfræðivinnslu, aðstoða þolendur og gerendur markvisst, nýta betur úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili og að ná fleiri málum í gegnum refsivörslukerfið.
Stígamót sýndu þrjú stutt myndbönd sem sýna að að baki tölfræðilegra upplýsinga eru sögur raunverulegra brotaþola kynferðisofbeldis sem hafa upplifað gróf brot á mannréttindum sínum. Myndböndin sýna á mjög áhrifamikinn hátt að brotaþola upplifa sorg og skömm sem hefur varanleg áhrif á líf þeirra og heilsu. Einnig kom skýrt fram að meðferð á Stígamótum hjápar brotaþolum til að takast á við lífið að nýju.
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur og aðgerðarsinni fjallaði um þá miklu vitundarvakningu sem orðið hefur um kynferðisofbeldi og ofbeldi gegn konum á Íslandi á undanförnum misserum, til dæmis með hinni svokölluðu Beauty tips byltingu og frelsun geirvörtunnar. Þá ræddi hún um stuttmyndirnar Fáðu já! auk Stattu með þér! og hvernig nýta megi samfélagsmiðla til að vinna að forvörnum meðal ungmenna.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra segir samvinnu allra sem að málaflokknum koma vera forsendu þess að árangur náist við að draga úr ofbeldi í íslensku samfélagi. Reynslan af verkefninu "Að halda glugganum opnum" hefur staðfest nauðsyn þess að stjórnvöld, löggæsla, félagsþjónusta og heilbrigðiskerfið vinni saman að úrlausn mála.
Verkefnið hefur haft í för með sé að fleiri mál hafa fengið framgang í refsivörslukerfinu og einnig er margt sem sýnir fram á að verkefnið hafi komið í veg fyrir ítrekunar brot. Sigríður Björk Guðjónsdóttir segir að það sé mat embættisins að gerendur og brotaþolar séu í auknum mæli að leita sér aðstoðar. Vonir standa til að með verkefni sem þessu aukist traust borgaranna á lögreglunni og öryggisnet samfélagsins eflist með aukinni samvinnu lögreglu og félagsþjónustu. Lögreglustjórinn telur sýnt að með breyttum áherslum og forgangsröðun séu miklir möguleikar til staðar til að efla baráttuna gegn ofbeldi.
Fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna fjallar að þessu sinni um hvernig kvennanefndin getur stutt við framkvæmd nýju heimsmarkmiðanna. Annað meginefni fundarins er baráttan gegn ofbeldi gegn konum og var fundurinn í dag framlag Íslands í þeirri umræðu.
Frá kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna í New York 2016