Hoppa yfir valmynd
17. mars 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Norrænir ráðherrar jafnréttismála segja kynjajafnrétti bæði forsendu og drifkraft sjálfbærrar þróunar

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra ásamt ráðherrum jafnréttismála á hinum Norðurlöndunum og framkvæmdastjóra UN Women. - mynd

Heimsmarkmiðin voru samþykkt á leiðtogafundi haustið 2015 og eru vegvísir aðildaríkja Sameinuðu þjóðanna að sjálfbærri þróun til ársins 2030. Fund norrænu ráðherrana sóttu vel á annað hundrað manns og komust færri að en vildu. Ráðherrarnir funduðu einnig með Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastjóra UN Women.

Á fundi norrænu ráðherranna var rætt um markmiðin um menntun, heilsu og vellíðan, minni ójöfnuð, mannsæmandi vinnuskilyrði og hagvöxt út frá jafnréttissjónarmiðum. Ráðherrarnir fjölluðu um áskoranir á sviði jafnréttismála og lögðu áherslu á að samkeppnishæfi Norðurlanda í alþjóðlegum samanburði byggði ekki síst á hárri atvinnuþátttöku kvenna og framlagi þeirra á vinnumarkaði. Það væri sameiginleg reynsla Norðurlandaþjóða að kynjajafnrétti væri í senn drifkraftur og grundvöllur hagsældar og velferðar. 

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra fjallaði um tengsl kynjajafnréttis við heilsu og vellíðan almennings og benti á nauðsyn þess að höfða til ábyrgðar karla til að útrýma kynbundnu ofbeldi gegn konum. “Kynbundið ofbeldi á sér margar hliðar. Það dregur úr möguleikum okkar til að ná fullu kynjajafnrétti en það hefur einnig varanleg og neikvæð áhrif á líf og heilsu einstaklinga sem kostar samfélög heims gríðarlega háar fjárhæðir.” Mikilvægt er að stefna okkar og ákvarðanir taki bæði mið af körlum og konum. “Kynbundið ofbeldi er mjög skýrt dæmi um viðfangsefni stjórnmálanna þar sem ekki verða neinar framfarir nema karlmenn taki virka afstöðu gegn ofbeldinu.”

Síðastliðin 40 ár hefur norrænt samstarf á sviði jafnréttismála verið farsælt og átt stóran þátt í að skipa Norðurlandaþjóðunum í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði. Árangurinn talar sínu máli. Hvergi mælist kynjajafnrétti meira en á Norðurlöndum. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa Norðurlöndin leitast við að tala einni röddu til að knýja fram árangur í málaflokknum á heimsvísu. Norðurlöndin náðu miklum árangri við gerð heimsmarkmiðanna þar sem norræn stjórnvöld lögðu ríka áherslu á að öll aðildaríki viðurkenndu rétt kvenna til lífs án mismununar og ofbeldis sem og rétt þeirra til kyn- og frjósemisheilbrigðis, þar á meðal bann við limlestingum á kynfærum barna og kvenna.

Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóri UN Women þakkaði norrænum stjórnvöldum öflugan fjárhagslegan og pólitískan stuðning við starfssemi UN Women en yfir 40% heildarframlaga til stofnunarinnar kemur frá Norðurlöndunum. Phumzile Mlambo-Ngcuka sagði Norðurlöndin vera mikilvæga fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar árangur í jafnréttismálum og að þau væru í lykilstöðu til að sýna heimsbyggðinni fram á að raunhæft sé að ná fullu jafnrétti kvenna og karla fyrir árið 2030. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta