Saman gegn sóun
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra efndi í dag til morgunverðarfundar á Hallveigarstöðum í tengslum við stefnu ráðherra um að draga úr sóun, sem ber heitið Saman gegn sóun. Ráðherra nefndi í ræðu sinni að hún sé að íhuga frekari aðgerðir til að stemma stigum við matarsóun og horfir ekki síst til nágrannalandanna í þeim efnum.
Stefnan er fyrsta almenna stefnan um hvernig draga megi úr úrgangi og bæta nýtingu auðlinda. Sérstök áhersla er á matarsóun í ár og á næsta ári. Á fundinum kynnti ráðherra stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun, sem gildir til 12 ára, en matarsóun, plast og textíll verða sett í forgang tvö ár í senn.
Á fundinum kynnti fulltrúi Umhverfisstofnunar nýja vefsíðu matarsoun.is sem hleypt var af stokkunum í tilefni dagsins og gerði grein fyrir umfangsmikilli könnun sem er framundan. Þá var flutt erindi um Databar strikamerkið og hvernig notkun þess getur leitt til minni matarsóunar og meira neytendaöryggis. Fulltrúi Kvenfélagasambands Íslands fjallaði um aðgerðir sem félagið hefur staðið fyrir og þá hugarfarsbreytingu sem hver og einn þyrfti að tileinka sér. Loks kynnti Landvernd námsefni fyrir grunnskóla, sem sett er fram á mjög áhugaverðan hátt.
Boðið var upp á morgunverð og brauðmeti á fundinum sem hefði annars verið hent deginum áður.