Hoppa yfir valmynd
21. mars 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Átak til að stytta bið sjúklinga eftir aðgerðum að hefjast

Frá undirritun samninga um styttingu biðlista - mynd

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra undirritaði í dag samninga við fjórar heilbrigðisstofnanir um þátttöku þeirra í skipulögðu átaki til að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum brýnum aðgerðum. Áformað er að verja 1663 m.kr. til þessa verkefnis á árunum 2016 – 2018, þar af um helming fjárins á þessu ári.

Árið 2016 verður ráðist í að stytta til muna bið fólks eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum: „Við stígum hér enn eitt stórt skref sem miðar að því að bæta þjónustu við sjúklinga, auka lífsgæði fólks og styrkja heilbrigðiskerfið“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. „Nú tökumst við á við biðlistana með það að markmiði að hámarksbið eftir aðgerð verði ekki lengri en 90 dagar.“

Bið sjúklinga eftir aðgerðum lengdist verulega í fyrravetur meðan á verkföllum heilbrigðisstarfsfólks stóð. Á grundvelli upplýsinga frá Embætti landlæknis um fjölgun á biðlistum lagði heilbrigðisráðherra fyrir ríkisstjórn áætlun um aðgerðir til úrbóta. Byggt var á tillögum landlæknis þar sem horft var til biðtíma og áhættu sem leiðir af bið eftir aðgerð. Niðurstaðan varð sú að ráðast í aðgerðir til að stytta bið eftir augasteinsaðgerðum, gerviliðaaðgerðum á hné og á mjöðm og hjartaþræðingu.

Ríkisstjórnin samþykkti tillögu ráðherra og miðast þau áform við að verja 1,663 milljónum króna á árunum 2016 – 2018 til að stytta bið eftir aðgerðum. Meiri  hluti fjárins verður nýttur á þessu ári. Markmiðið er að í lok átaksins þurfi sjúklingar ekki að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð.

Embætti landlæknis hefur verið falið að efla umgjörð um biðlista þannig að ávallt liggi fyrir upplýsingar um biðtíma og fjölda þeirra sem bíða, í stað þess að taka þessar upplýsingar saman á þriggja mánaða fresti.

Samningarnir eru við Landspítalann (LSH), Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk), Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVe) og fyrirtækið Sjónlag hf. Í þeim felst að sérstaklega hefur verið samið um fjármuni til að framkvæma tilteknar aðgerðir umfram það sem stofnanirnar höfðu ráðgert miðað við rekstrarfé af fjárlögum eins og hér segir:

Liðskiptaaðgerðum fjölgað um 530

Á grundvelli fjárlaga áætla LSH, SAk og HVe að framkvæma 1.010 liðskiptaaðgerðir (hné og mjaðmir) á þessu ári. Með átakinu bætast við 530 aðgerðir (52% aukning). Nú bíða 1.336 sjúklingar eftir liðskiptaaðgerð.

Augasteinsaðgerðum fjölgað um 2.890

Á grundvelli fastra fjárveitinga til stofnana ríkisins er áætlað að framkvæma 1.020 augasteinsaðgerðir á LSH og SAk, auk 800 aðgerða á ári samkvæmt samningum við einkaaðila. Með átakinu sem samningarnir taka til bætast við 2.890 aðgerðir (159% aukning). Samkvæmt nýjustu upplýsingum bíða nú 3.839 eftir augasteinsaðgerð.

Hjartaþræðingum fjölgað um 50

Á grundvelli fjárlaga er áætlað að framkvæma 1.725 hjartaþræðingar á Landspítala en með átakinu verður þeim fjölgað um 50 (3% aukning). Landspítalanum hefur tekist að stytta verulega bið eftir hjartaþræðingu á síðustu misserum. Í október 2014 biðu 274 eftir aðgerð,  171 í október 2015, en á biðlista í janúar sl. voru 92 einstaklingar. Ljóst er að með þessu átaki mun á þessu ári takast að tryggja öllum sjúklingum sem bíða eftir hjartaþræðingu aðgerð innan þriggja mánaða.

Eftirfylgni með samningunum

Heilbrigðisstofnanirnar sem taka þátt í átakinu skuldbinda sig jafnframt til að ná sem bestum árangri við að stytta biðtíma eftir öllum aðgerðum sem þær framkvæma. Áskilið er að framkvæmd aðgerða sem heyra undir átakið leiði ekki til þess að bið eftir öðrum valkvæðum aðgerðum lengist. Og þurfa aðilar sem taka þátt í átakinu að skila mánaðarlegri greinargerð um framvindu átaksins.

Velferðarráðuneytið mun greiða reglubundið fyrir þær aðgerðir sem samningarnir taka til í samræmi við tímasetta áætlun um framkvæmd þeirra. Náist ekki að framkvæma áætlaðan fjölda aðgerða lækka greiðslur sem því nemur. Ef fyrirséð er að samningsaðilar nái ekki að framkvæma umsaminn fjölda aðgerða á árinu getur ráðuneytið endurúthlutað fjármunum svo unnt sé að ná markmiðum átaksins.

Á meðfylgjandi mynd frá undirritun samninganna má sjá ásamt heilbrigðisráðherra Pál Matthíasson, forstjóra Landspítala, Guðjón Brjánsson, forstjóra HVe, Bjarna Jónasson forstjóra SAk  og Kristin Ólafsson, framkvæmdastjóra Sjónlags. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta