Starfshópur um verkaskiptingu Umhverfisstofnunar og Landgræðslu ríkisins skilar tillögum
Starfshópur sem Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði til að skoða leiðir að samþætta eða sameina stofnanir á sviði náttúruverndar og landgræðslu þ.e. Umhverfisstofnunar og Landgræðslu ríkisins, hefur skilað tillögum sínum. Starfshópurinn leggur til að auka samstarf og skýra betur verkaskiptingu og hlutverk stofnananna. Hópurinn telur ekki forsendur fyrir sameiningu stofnananna.
Á undanförnum árum hafa orðið breytingar sem kalla á slíka endurskoðun. Skiptir þar mestu hinar fordæmalausu áskoranir hvað varðar álag á náttúruna og þörf á framkvæmdum, viðhaldi og þjónustu í tengslum við hina miklu fjölgun ferðamanna. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið ber ábyrgð á verndun náttúru landsins og á jafnframt að stuðla að sjálfbærri nýtingu hennar. Því kalla þessar miklu breytingar á endurskoðun á starfsemi stofnana ráðuneytisins á þessu sviði.
Hópurinn skilar greinargerð sem líta má á sem fyrstu skref og tillögu til ráðherra um markvissara samstarf stofnananna þar sem stefnt er að meiri sérhæfingu og skýrari verkaskiptingu ekki síst milli stjórnsýslu og framkvæmda/reksturs. Unnið verði að því í framhaldi undir stjórn umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Má þar nefna:
Umhverfisstofnun
Leitað verið leiða til að efla stjórnsýsluverkefni eins og gerð stjórnunar- og verndaráætlana, leyfisveitingar, lokanir og friðlýsingar hjá Umhverfisstofnun. Jafnframt er mikilvægt er að stofnunin nái að sinna samræmingarhlutverki sínu og innleiðingu nýrra náttúruverndarlaga, til að mæta auknum kröfum sem þar eru settar fram svo og áskorunum vegna aukinnar umferðar ferðamanna.
Landgræðsla ríkisins
Lagt er til að unnar verði breytingar á viðfangsefnum Landgræðslu ríkisins sem fái viðtækara hlutverk á sviði náttúruverndar, jarðvegs- og gróðurverndar og eflingu sjálfbærrar landnýtingar. Stofnunin annist framkvæmdir, veiti þjónustu og annist umsjón lands, á þeim landssvæðum sem henni er falið og veiti jafnframt slíka þjónustu til landsins í heild. Til að svo verði er mikilvægt að ljúka sem fyrst endurskoðun á lögum um landgræðslu þar sem hlutverk stofnunarinnar yrði skilgreint frekar og útfært.
Samstarf og verkaskipting
Samstarf Umhverfisstofnunar og Landgræðslu ríkisins verði styrkt og ráðist í ákveðin samstarfsverkefni þar sem sammælst verður um verkaskiptingu, verklag og samskiptaleiðir varðandi einstaka verkþætti. Mikilvægt er að samstarfið verði til að auka slagkraft stofnanna. Umhverfis- og auðlindaráðuneyti verði falið að útfæra þau samstarfsverkefni sem ráðist verður í.
Horft til lengri tíma
Samhliða því að samstarf Landgræðslu ríkisins og Umhverfisstofnunar verði eflt og skýrt, verði skoðað aukið samstarf þessara tveggja stofnanna og annarra opinberra stofnana sem fara með umsjón á landi. Í því samhengi er mikilvægt að meta þörf á skýrari verkaskiptingu á milli stjórnsýslu og framkvæmda/vörslu/rekstrar á sviði náttúruverndar.
Tillögur starfshóps um verkaskiptingu Umhverfisstofnunar og Landgræðslu ríkisins