Æfa viðbrögð við bruna í skemmtiferðaskipi í norðurhöfum
Tilgangur æfingarinnar er að þessir aðilar, leitar- og björgunaraðilar annars vegar og útgerðirnar hins vegar, skiptist á upplýsingum og reynslu um starfsemi hvor annars. Sjóslys á norðurslóðum reyni mjög á getu björgunaraðila og geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífríki og umhverfi á þessu hafsvæði og sé erfitt viðureignar vegna fjarlægðar og langs viðbragðstíma.
Við upphaf æfingarinnar flutti Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, ávarp og bar fundarmönnum kveðju Ólafar Nordal innanríkisáðherra og kom á framfæri þökkum hennar til aðstandenda æfingarinnar fyrir að standa að henni. Ráðuneytisstjórinn sagði mikilvægt að þessir aðilar þekktu sem gerst starfsemi og aðstæður í norðurhöfum og sagði Landhelgisgæslu Íslands gegna þýðingarmiklu hlutverki í þessum efnum ásamt systustofnunum í nágrannaríkjum. Sagði hún íslensk stjórnvöld hafa tekið þátt í viðræðum um að koma á björgunarmiðstöð á norðurslóðum sem hefði einkum það hlutverk að bregðast við vá á þeim slóðum. Því væri lykilatriði að setja upp viðbragðsáætlun og koma saman til að æfa slíka áætlun.
Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis í ræðustóli.
Auðunn Kristinsson og Frigg Jörgensen fluttu ávarp við upphaf æfingarinnar.
Auðunn Kristinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, og Frigg Jörgensen, framkvæmdastjóri Samtaka skemmtiferðaskipa á norðurslóðum, fluttu einnig ávarp við upphaf æfingarinnar. Fram kom að æfing og samhæfing sem þessi hefur ekki verið haldin áður og í sumar er ráðgert að Landhelgisgæslan æfi aðgerðir með áhöfnum nokkurra útgerð sem senda munu skip sín á norðurslóðir.
Á dagskrá æfingarinnar í dag munu fulltrúar landhelgisgæslu, landamæragæslu og siglingayfirvalda á Norðurlöndum flytja erindi um starfsemi þessara aðila svo og fulltrúar úgerða. Þá verða æfð viðbrögð við atburði þegar upp kemur eldur í vélarrúmi skips með tæplega 400 manns innanborðs þegar það er statt við Jan Mayen á leið frá Íslandi til Svalbarða.