Hópur flóttafólks frá Sýrlandi boðinn velkominn í dag
„Okkur er umhugað um að ykkur líði vel hér, takið fullan þátt í samfélaginu og verðið hluti af því“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, í móttökuathöfn síðdegis þegar hópur flóttafólks frá Sýrlandi var boðinn velkominn til landsins. Þetta eru fjórar fjölskyldur, þrjár þeirra sestjast að í Hafnarfirði og ein í Kópavogi.
Fólkið er allt landflótta Sýrlendingar og hefur dvalið í Líbanon um lengri eða skemmri tíma, þaðan sem það kom með flugi í dag eftir millilendingu í París. Haldin var stutt móttökuathöfn við komu fólksins þar sem félags- og húsnæðismálaráðherra ásamt fulltrúum bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og Kópavogi og fulltrúar Rauða krossins buðu þessa nýju landa velkomna með hlýjum orðum og góðum gjöfum.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fór nokkrum orðum um undirbúninginn að komu fólksins til landsins sem farið hefði fram í afar góðu samstarfi milli starfsfólks sveitarfélaganna, Rauða krossins og velferðarráðuneytisins með aðkomu fjölda sjálfboðaliða:
„Án efa á margt eftir að koma ykkur á óvart á næstu dögum, vikum og mánuðum, hvort sem það eru siðir og venjur okkar, veðráttan eða náttúran en vonandi fer ykkur að líða eins og innfæddum með tíð og tíma og komist þið að því að við erum ekki svo frábrugðin ykkur. Okkur er umhugað um að ykkur líði vel hér og þið takið fullan þátt í samfélaginu og verðið hluti af því. Nú þegar hafa tveir hópar af Sýrlendingum komið hingað í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og von er á öðrum hópi í haust svo vonandi munu þeir sem fyrir eru geta deilt reynslu sinni með ykkur og þeir sem eftir eiga að koma geta að sama skapi leitað til ykkar“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Nýjir íslendingar