Lilja Alfreðsdóttir nýr utanríkisráðherra
Nýr utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, tók í dag við af Gunnari Braga Sveinssyni, sem gengt hefur embættinu frá 23. maí 2013 en hann verður nú sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Lilja er alþjóðahagfræðingur að mennt. Hún hefur starfað í Seðlabanka Íslands frá árinu 2001 og sem aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands frá 2013.
Lilja var ráðgjafi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC frá 2010 til 2013 og sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu 2014-2015 og var í leyfi frá bankanum á meðan. Hún er með meistaragráðu frá Columbia University í alþjóðahagfræði og BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.
Lilja er fædd 4.október 1973. Hún er gift Magnúsi Óskari Hafsteinssyni, hagfræðingi í fjármálaráðuneytinu og eiga þau tvö börn.