Benedikt Sigurðsson ráðinn aðstoðarmaður forsætisráðherra
Benedikt Sigurðsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar, forsætisráðherra. Benedikt fylgir Sigurði Inga úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Benedikt var áður sviðsstjóri ytri- og innri samskipta Actavis á Íslandi og sat einnig í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Benedikt hefur einnig gegnt starfi aðstoðarmanns formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og starfi fjölmiðlafulltrúa Kaupþings banka, en lengst af starfaði hann sem fréttamaður á fréttastofu Sjónvarpsins. Benedikt hefur bakkalárgráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann er í sambúð með Dagnýju Baldvinsdóttur, hjúkrunarfræðingi og starfsmanni Actavis, og eiga þau saman þrjú börn.