Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2016 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla ríkislögreglustjóra til innanríkisráðherra um mat á Schengen-samstarfinu

Innanríkisráðherra óskaði í desember síðastliðnum eftir matsskýrslu ríkislögreglustjóra vegna Schengen samstarfsins. Skýrslan barst ráðherra í dag og kemur þar meðal annars fram að fjölgun ferðamanna, hælisleitenda og flóttamanna kalli á viðbrögð af hálfu stjórnvalda og löggæslunnar. Einnig að áframhaldandi þátttaka í Schengen-samstarfinu kalli á ýmsar úrbætur á sviði öryggismála í samræmi við ákvæði Schengen-samningsins svo sem bætta eftirfylgni með útgefnum dvalarleyfum og farþegalistagreiningu.

Óskað var eftir því að skýrslan myndi fjalla um eftirfarandi atriði:

  • Helstu áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir varðandi löggæsluþátt samstarfsins, þ. á m. með hliðsjón af þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar eru á vettvangi samstarfsins, s.s. aukið eftirlit á ytri landamærum.
  • Þýðing Schengen samstarfsins hér á landi fyrir löggæsluna. Í matinu skal koma fram greining á kostum og göllum samstarfsins fyrir löggæslu og öryggishagsmuni. Þess er óskað að gerður verði samanburður á viðbúnaðargetu lögreglu við eftirlit á landamærum og annarrar löggæslu miðað við að Ísland standi innan og utan Schengen-samstarfsins. Í því sambandi verði m.a. lagt mat á mikilvægi lögreglusamvinnu á svæðinu og aðgangs íslensku lögreglunnar að upplýsingum, sem Schengen-samstarfið tryggir.

Tilefni þessarar beiðni var fordæmalaus fjölgun útlendinga og flóttamanna til Evrópu á undanförnum misserum sem hefur skapað verulegan þrýsting á Schengen-samstarfið og aukið eftirlit einstakra ríkja innan Schengen-samstarfsins á innri landamærum á Schengen svæðinu. Þá hefur viðbúnaðarstig í Evrópu verið hækkað vegna hryðjuverkaógnar og yfirstandandi vinnu á vettvangi Evrópusambandsins með aðkomu samstarfsríkja Schengen, að úrbótum á Schengen samstarfinu í því skyni að tryggja virkt eftirlit á ytri landamærum. Taldi ráðherra mikilvægt að meta stöðu Schengen-samstarfsins og þýðingu þess fyrir Ísland við þessar aðstæður.

Í matsskýrslu ríkislögreglustjóra er rakin þýðing Schengen samstarfsins fyrir löggæslu hér á landi, auk þess sem greindar eru helstu áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir varðandi löggæsluþátt Schengen samstarfsins. Er í matinu tekið mið af atburðum undanfarinna missera sem átt hafa sér stað innan og við ytri landamæri Schengen-svæðisins annars vegar vegna mikils fjölda flóttamanna inn á svæðið og hins vegar vegna hryðjuverkaárása í París og Brussel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta