Utanríkisráðherra styrkir neyðaraðstoð við börn í Ekvador
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að bregðast við neyðarbeiðni frá stjórnvöldum í Ekvador eftir jarðskjálftann í síðustu viku með því að verja tæplega 13 milljónum króna í neyðaraðstoð við börn. Ráðherra hefur falið Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna í Ekvador, UNICEF, að verja framlaginu í þágu barna sem eiga um sárt að binda eftir skjálftann. Að mati samtakanna er þörf á mikilli sálrænni aðstoð við börn á hamfarasvæðum en einnig þarf að bæta vatns- og salernisaðstöðu og styðja við þau fjölmörgu börn sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur.
Neyðarbeiðni barst frástjórnvöldum í Ekvador í kjölfar stóra jarðskjálftans aðfaranótt sunnudags en einnig hafa margir öflugir eftirskjálftar riðið yfir, sá stærsti síðastliðna nótt. Tæplega 600 manns eru látnir, samkvæmt opinberum tölum, og tæplega 6000 slasaðir.
Alþjóðlegar hjálparstofnanir hafa brugðist hratt við með aðstoð og von er á sameiginlegu ákalli frá stofnunum Sameinuðu þjóðanna um neyðaraðstoð. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hefur þegar hafið flutning hjálpargagna til landsins, Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP, undirbýr sendingu matvæla og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur nú þegar greint frá því að þörf sé á um einni milljón Bandaríkjadala til aðstoðar við börn.