Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2016 Innviðaráðuneytið

Ísland og Bandaríkin undirbúa nýjan samning um gagnkvæma viðurkenningu á vottun flugvéla

Fulltrúar íslenskra samgönguyfirvalda áttu í síðustu viku fund í Washington með fulltrúum utanríkisþjónustu og Flugmálastjórnar Bandaríkjanna. Tvíhliða BASA-samningur milli Íslands og Bandaríkjanna um gagnkvæma viðurkenningu á vottun flugvéla og búnaðar hefur verið í gildi frá árinu 2009 en ekki hefur verið gengið frá þeim hluta hans sem snýr að verklagi við vottun búnaðar. Tilefni fundarins var ósk Íslands um að ljúka gerð BASA samningsins og útfæra viðauka hans um verklag við gagnkvæma viðurkenningu á vottun um lofthæfi flugvéla og búnaðar í flugvélar.

Á fundinum var farið yfir forsögu BASA-samningsins milli Íslands og Bandaríkjanna sem var undirritaður í september 2004 og tók gildi í júní 2009. Einnig var vísað í bréf frá íslensku utanríkisþjónustunni frá 2009 þar sem óskað var eftir að Ísland gerðist aðili að BASA-samningi milli Bandaríkjanna og ESB með sambærilegum hætti og Ísland er aðili að loftferðasamningi ESB og Bandaríkjanna. Það fyrirkomulag krefst nýs BASA-samnings og hafa viðræður staðið yfir í nokkurn tíma um það en Bandaríkjamenn hafa ekki fallist á þá leið. Ísland óskaði eftir því að viðræður færu fram milli landanna til að unnt væri að hrinda gildandi samningi í framkvæmd og vísaði í hliðstæðan samning Bandaríkjanna og Sviss sem mögulega fyrirmynd. Fulltrúum Samgöngustofu og Flugmálastjórnar Bandaríkjanna yrði falið að útfæra textann.

Fulltrúar Bandaríkjanna tóku vel í erindi Íslands og kom fram að þeir telja nauðsynlegt að koma til Íslands til þess að fara yfir aðstæður hjá Samgöngustofu, löggjöf og eftirlit. Tóku þeir vel í að hefja undirbúning strax og að Samgöngustofa sendi þeim upplýsingar.

Fulltrúar Íslands á fundinum voru Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneyti, Kristín Helga Markúsdóttir og Ómar Þór Edvardsson frá Samgöngustofu og Erlingur Erlingsson, frá sendiráði Íslands í Washington.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta