Stígandi í uppbyggingu Landspítala við Hringbraut
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði stefna í stórtíðindi varðandi uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í ávarpi sínu á ársfundi Landspítala í dag. Þar vísaði hann í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins sem verður kynnt á næstu dögum en þar er í fyrsta sinn áætlað fyrir milljarða framkvæmdum vegna meðferðarkjarna nýs spítala.
Ársfundurinn var haldinn undir yfirskriftinni „sjúklingurinn í öndvegi“ og lagði ráðherra út af því í ræðu sinni. Hann ræddi um forsendur þess að geta tryggt sjúklingum þennan sess og lagði þar áherslu á að geta mannað heilbrigðisþjónustuna vel menntuðu og færu starfsfólki. Laun skiptu miklu máli í því sambandi, en fleira kæmi til, ekki síst húsakostur, tækjakostur og starfsumhverfið almennt séð. Hann benti á að aðbúnaður og vinnuskilyrði hafi áhrif á störf fólks og getu til að leysa úr flóknum verkefnum og um mikilvægi þess að búa vel að fárveikum sjúklingum þyrfti ekki að ræða í löngu máli.
Ráðherra sagði hafa dregið til tíðinda í langþráðri uppbyggingu Landspítala við Hringbraut þegar verkefnið komst á framkvæmdastig og hafist var handa við byggingu sjúkrahótelsins sem tekið verður í notkun á næsta ári. Síðan fór hann yfir fjárveitingar til framkvæmdanna og hvernig það væri stígandi í þessu máli:
„Í fjárlögum 2015 samþykkti Alþingi að veita einum milljarði króna til verksins. Árið 2016 eru tæpir tveir milljarðar ætlaðir í Nýjan Landspítala og nú stefnir í stórtíðindi, því fimm ára fjármálaáætlun ríkisins verður kynnt á næstu dögum og ég get sagt það strax að þar er í fyrsta sinn áætlað fyrir milljarða framkvæmdum við meðferðarkjarna nýs spítala sem rísa mun á lóð Landspítalans við Hringbraut í samræmi við áætlanir og ákvarðanir stjórnvalda og fyrirliggjandi skipulag. Í áætluninni er tryggt fjármagn sem gerir kleift að bjóða út framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna strax og hönnunarferlinu lýkur árið 2018“ sagði Kristján Þór meðal annars.
Ráðherra kom víða við í ræðu sinni og rakti ýmis verkefni sem unnið er að í heilbrigðiskerfinu, s.s. úrbætur í heilsugæslunni, nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu og átak sem unnið er að til að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum aðgerðum svo eitthvað sé nefnt. Þá nefndi hann sérstaklega breytingar á fjármögnun Landspítala sem fyrirhugaðar eru með innleiðingu svokallaðs DRG fjármögnunarkerfi sem felur í sér framleiðslutengda fjármögnun, en slíkt kerfi er notað víða í nágrannalöndunum: „Það hefur verið lögð í þetta mikil vinna en nú sjáum við til lands og ég reikna með að fljótlega verði gerður samningur sem kveður á um innleiðinguna. Til að byrja með verður kerfið prufukeyrt án rauntengingar við fjármögnunina en á næsta ári ætti þetta að verða virkt fjármögnunarkerfi á Landspítalanum.“
Efni frá fundinum á vef Landspítala:
- Ávarp forstjóra Landspítala
- Ársskýrsla Landspítala 2015
- Ársreikningur Landspítala 2015 og skýringar á ársfundi