Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2016 Dómsmálaráðuneytið

Hugað verði að endurskoðun laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu

Þriggja manna nefnd sem innanríkisráðherra skipaði í júlí 2014 til að endurskoða svokallað kirkjugarðasamkomulag skilaði nýverið skýrslu sinni til ráðherra. Meðal niðurstaðna nefndarinnar er að huga þurfi að endurskoðun laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Hlutverk nefndarinnar var að kanna forsendur sem lágu að baki samkomulagi um árlegt framlag úr ríkissjóði til kirkjugarða, huga að breytingum sem kynni að vera þörf fyrir á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu og hvort lögin væru nægilega skýr um hvaða þjónustu kirkjugarðar skuli láta almenningi í té endurgjaldslaust.

Helstu niðurstöður nefndarinnar eru eftirfarandi:

  • Huga þurfi að endurskoðun laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993. Slík endurskoðun sé að mörgu leyti forsenda fyrir gerð nýs samkomulags um fjárframlög sem sátt gæti orðið um.
  • Hugað verði að sameiningu í rekstri núverandi sjálfseignarstofnana sem annast rekstur kirkjugarða.
  • Gera þurfi núverandi ákvæði laganna skýrari hvað varðar verkefni sem kirkjugörðum ber að sinna og nýtur fjármögnunar úr ríkissjóði. Það eigi til að mynda um rekstur líkhúsa. Þá bendir nefndin á að ekki eru ákvæði í lögum um hvernig fara skuli með lík frá andláti til greftrunar og/eða brennslu.

Þá bendir nefndin á að kirkjugörðum er gert að greiða fyrir þjónustu presta, sem nefndin telur að eigi ekki að vera hlutverk kirkjugarðanna.

Fyrirhugaður er sameiginlegur fundur ráðuneytisins og kirkjugarðaráðs með nefndinni þar sem farið verður yfir efni skýrslunnar og niðurstöður.

Nefndina skipuðu Jóhannes Finnur Halldórsson, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu sem jafnframt var formaður hennar, Guðrún Ögmundsdóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og formaður Kirkjugarðasambands Íslands. Með nefndinni störfuðu tveir starfsmenn innanríkisráðuneytisins, þau Fanney Óskarsdóttir lögfræðingur og Oddur Einarsson stjórnsýslufræðingur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta