Mannréttindi alþjóðleg og altæk
Mikilvægi virðingar fyrir mannréttindum og þáttur þeirra í utanríkisstefnu Íslands var umfjöllunarefni Lilju Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra, á alþjóðlegum hringborðsumræðum um mannréttindamál, sem haldin er í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Á fjórða tug fræðimanna, dómara, embættismanna og stjórnmálamanna, hvaðanæva að úr heiminum, taka þátt í umræðunum, sem haldnar eru hér á landi að frumkvæði Ögmundar Jónassonar, alþingismanns og Institute for Cultural Diplomacy.
"Mannréttindabrot eru ein meginástæða átaka og stríðs í heiminum og baráttunni fyrir mannréttindum er hvergi nærri lokið", sagði Lilja í ávarpi sínu og lagði í því sambandi áherslu á að ekki mætti slaka á gagnvart kröfum öfgaafla um að skerða mannréttindi einstakra hópa.
Baráttan fyrir mannréttindum hefur verið einn hornsteina íslenskrar utanríkisstefnu um langt skeið. Hennar sér ekki síst stað í áherslu Íslands á kynjajafnrétti og þess að alþjóðaskuldbindingar á þessu sviði séu virtar, þar með talið alþjóðasamningurinn um afnám allrar mismununar gegn konum. „Ég tel að einn þáttur í jafnréttisbaráttunni sé að fá karla til að taka virkari þátt í henni. Ég vil halda áfram því góða starfi sem forveri minn vann í þeim efnum, m.a. með því að halda fleiri Rakarastofuráðstefnur,“ sagði Lilja.
Uttanríkisráðherra minntist einnig á reglubundna skoðun Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna en mannréttindaástandið á Íslandi verður tekið fyrir af ráðinu í nóvember. „Okkur er hollt að ræða stöðuna og að fá utanaðkomandi augu til að meta hana. Ef þetta kerfi á að virka og veita aðhald verða öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að taka þátt í því á jafningjagrundvelli og í góðri trú. Ekkert ríki getur haldið því fram að mannréttindamál séu innanríkismál. Mannréttindi eru alþjóðleg og altæk."