Umbótaverkefni Útlendingastofnunar og Flóttamannastofnunar skila árangri
Við upphaf fundarins fluttu ávarp Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, Pia Prytz Phiri, sem fer fyrir Flóttamannastofnun SÞ í Norður Evrópu, og Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar. Þá sögðu tveir flóttamenn frá reynslu sinni af meðferð hælismála sinna, fyrir og eftir að umbætur tengdar verkefninu voru gerðar. Einnig tóku til máls fulltrúi Rauða krossins á Íslandi og sérfræðingar Flóttamannastofnunar og Útlendingastofnunar.
Skýrsla um verkefnið verður aðgengileg á vef Útlendingastofnunar.
Í ávarpi sínu flutti Ragnhildur Hjaltadóttir fundinum kveðju Ólafar Nordal innanríkisráðherra sem var bundin á ríkisstjórnarfundi og þakkaði fulltrúum Flóttamannastofnunar SÞ fyrir áhuga þeirra og aðstoð við að meta stöðu málefna hælisleitenda hér á landi. Hún sagði að skýrsluheitið, Rising to the Challenge – Improving the Asylum Process in Iceland, væri lýsandi fyrir þá áskorun að bæta úr í afgreiðslu umsækjenda um vernd á Íslandi. Einnig að Evrópuríki horfðust nú í augu við mun meiri fjölda flóttamanna og hælisleitenda en eftir síðari heimsstyrjöld. ,,Við þekkjum hvernig ástandið getur breyst á einni nóttu og því þarf kerfi okkar að vera sveigjanlegt til að ráða við sífellt vaxandi fjölda umsækjenda,“ sagði hún meðal annars og lagði áherslu á að kerfið væri fyrir fólk sem þyrfti að vernd að halda og tilgangur þess væri að rétta þeim hjálparhönd sem á þyrftu að halda.
Einnig nefndi ráðuneytisstjórinn í ávarpi sínu að öll meðferð umsókna um vernd yrði að vera í senn réttlát og skilvirk, vinna yrði bæði hratt og vanda til verksins. Þetta tvennt yrði að haldast í hendur og að aldrei mæti fórna gæðum fyrir hraða og því væri sérstök ástæða til að hrósa verkefninu fyrir að ekki var einblínt á hraða og skilvirkni heldur og á gæði og réttlæti.
Þá sagði Ragnhildur að samvinna milli aðila sem sinntu verkefnum í þessum málaflokki væri lykilatriði , innanlands sem alþjóðlega og minnti á mikilvægi aðkomu Rauða krossins á Íslandi í þessu sambandi. Hún þakkaði að lokum starfsfólki Útlendingastofnunar fyrir að hafa kjark til að taka áskorun og ráðast í breytingar og umbætur, vegferð sem aldrei tæki enda.
Í kjölfar kynningarfundarins funduðu fulltrúar Flóttamannastofnunar með fulltrúum innanríkisráðuneytisins þar sem þakkað var gott samstarf og lýstu jafnframt yfir áhuga á áframhaldandi samstarfi á fleiri sviðum, sem var vel tekið.