Efling umhverfismála í brennidepli
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis-og auðlindaráðherra, upplýsti í ávarpi sínu á ársfundi Umhverfisstofnunar sl. föstudag að gert væri ráð fyrir byggingu gestastofu Þjóðgarðsins á Snæfellsnesi á Hellissandi í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 en þar væru áætlaðar um 300 milljónir króna til verkefnisins.
Ráðherra sagði þetta gleðitíðindi: „Við hefjumst handa strax. Þetta verður mikil búbót og bylting fyrir þjóðgarðinn og fyrir Snæfellsnes og eykur án efa aðdráttarafl svæðisins til muna.“
Í ræðu ráðherra kom fram að yfir 40 ár eru síðan Eysteinn Jónsson ályktaði um stofnun þjóðgarðs sem bera skyldi heitið „Þjóðgarður undir Jökli“. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hafi svo verið stofnaður fyrir 15 árum í þeim tilgangi að vernda sérstæða náttúru og merkar sögulegar minjar.
Ársfundur Umhverfisstofnunar bar yfirskriftina grænt samfélag, grænir ferðamannastaðir og var kastljósinu beint að því hvaða áskoranir þurfi að takast á við til að geta búið í grænu samfélagi til framtíðar. Þá var þeirri spurningu velt upp hvað grænir ferðamannastaðir væru.
Ráðherra sagði að landvarsla yrði efld frekar víða um land í takt við mikla þörf til að bæta öryggi þeirra sem sækja okkur heim til mynda við Mývatn, að Fjallabaki og á Hornströndum.
Ráðherra benti á að miklar væntingar væru til nýrra laga um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Lögin veiti svigrúm til að setja meiri kraft í framkvæmdir og til að hafa skýrari yfirsýn. Þá væri brýnt að skilgreina betur ferðamannasvæði enda er náttúran frá fjöru til fjalla á Íslandi, einstök auðlind sem ber að umgangast af virðingu og alúð.
Þá sagði ráðherra að spennandi tækifæri lægju í því að virkja kraft nýsköpunar. „Við viljum hafa framtíðina græna og þurfa fjárfestar í auknum mæli að koma að borðinu til að taka þátt í þeirri þróun svo einstaklingar, ríkið og atvinnulífið geti lagt meira af mörkum til umhverfismála.“
Að lokum talaði ráðherra um hversu ánægjulegt væri að skynja hvað fólk væri farið að hugsa meira um nýtni og umgengni. „Hegðun okkar dagsdaglega skiptir máli hvort sem hún lýtur að vali á fatnaði, matarsóun, orkunotkun eða samgöngum sem allt hefur áhrif á vistsporið.“ Hún legði sérstaka áherslu á að vinna gegn matarsóun, enda væri þar um loftslagsmál að ræða þar sem matarsóun veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Undirbúningur væri hafinn að kortlagningu vandans og mikilvægt væri að virkja allt samfélagið með festu svo árangur næðist. Til mikils væri að vinna.