Hoppa yfir valmynd
6. maí 2016 Innviðaráðuneytið

Breyting á reglugerð um öryggi farþegaskipa til umsagnar

Innanríkisráðuneytið birtir nú til umsagnar drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 666/2001 um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 12. maí nk. og skulu umsagnir berast á netfangið [email protected].

Drögin eru samin að tillögu Vegagerðarinnar en þau fela í sér breytingu á skilgreiningu siglingaleiðarinnar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar á tímabilinu 1. maí til 30. september ár hvert.

Skilgreining hafsvæða fer eftir fjarlægð frá strandlínu og sjólagi á svæðinu og stýtir hún því hvaða kröfur eru gerðar til farþegaskipa sem þar sigla. Ítrustu kröfur eru gerðar til skipa í flokki A og vægustu til flokks D. Samkvæmt gildandi reglum eru það einungis skip í flokki B sem mega sigla milli lands og Eyja. Vegagerðin leggur til að því verði breytt þannig að skip í flokki C megi sigla umrædda leið á tímabilinu 1. maí til 30. september ár hvert.

Flokkur C eru farþegaskip í innanlandssiglingum á hafsvæðum þar sem líkur á hærri kenniöldu en 2,5 m eru minni en 10% á ársgrundvelli miðað við rekstur allt árið eða þeim hluta ársins sem reksturinn er bundinn við (t.d. yfir sumartíma). Skal fjarlægð að vari aldrei vera meiri en 15 sjómílur og fjarlægð að strandlínu, þar sem skipreika fólk getur lent, aldrei meiri en fimm mílur miðað við meðalflóðhæð.

Fjarlægð milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar er 6,4 mílur og siglingar falla því innan flokks C. Samkvæmt öldukorti fyrir ferjuleiðina Vestmannaeyjar-Landeyjahöfn-Þorlákshöfn eru líkur á hærri kenniöldu en 2,5 m minni en 10% á ársgrundvelli. Leggur því Vegagerðin til að flokkun siglingaleiðarinnar verði breytt fyrir framangreint tímabil.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta