Norrænir utanríkisráðherrar skrifa um samvinnu við Bandaríkin
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna birtu í gærkvöldi grein í Huffington Post þar sem þeir fara yfir nokkur meginstef í samskiptum ríkjanna og Bandaríkjanna. Á morgun, föstudag, verður leiðtogafundur forsætisráðherra þjóðanna og Barack Obama Bandaríkjaforseta, sem utanríkisráðherrarnir ennfremur sækja. Auk þess munu utanríkisráðherrarnir hitta hinn bandaríska starfsbróður sinn, John Kerry.
Í greininni minna ráðherrarnir á að samvinna Norðurlandanna og Bandaríkjanna sé nú þegar mikil; í öryggismálum, loftslagsmálum, fríverslun, norðurslóðum og varðandi sjálfbæra þróun svo fátt eitt sé nefnt. Segja ráðherrarnir efnahag ríkjanna sex standa styrkum fótum en Norðurlöndin vilji styrkja samstarfið við Bandaríkin enn frekar, til dæmis á sviði framþróunar í tækni og vísindum.
Bandaríkin og Norðurlöndin deili mörgum gildum, ekki síst varðandi jafnrétti og jöfn tækifæri. Í aukinni hnattvæðingu felist bæði tækifæri og áskoranir; hraðinn og áhrif alþjóðasamskipta aukist, og þar með einnig mikilvægi samvinnu yfir Atlantshafið. Sú samvinna verði leiðarstef fundanna í Washington á morgun.