Norðurlöndin öflug heild og fyrirmynd varðandi jafnrétti og velferð
Sameiginleg gildi og aukin samvinna á alþjóðavettvangi voru meginstef fundar Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og utanríkisráðherrum hinna Norðurlandanna í Washington í dag. Ráðherrarnir funduðu í tilefni af leiðtogafundi Bandaríkjanna og Norðurlandanna í morgun. „Sameinuð eru Norðurlöndin öflug heild og stærri þjóðir, líkt og Bandaríkin, horfa í auknum mæli til þeirra sem fyrirmynda á ýmsum sviðum, til dæmis í jafnréttis- og velferðarmálum," segir Lilja.
"Samskipti Íslands og Bandaríkjanna eru margháttuð en samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum er sérstaklega þýðingarmikið og hornsteinn í varnarstefnu Íslands eins og áréttað er í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi hefur nýlega samþykkt. Loftslagsmál og framlag Íslands, meðal annars er varðar endurnýjanlega orkugjafa og sú þekking sem fyrir er á Íslandi, sem og málefni norðurslóða, skipa einnig veigamikinn sess í samskiptum okkar. Sérstaklega er mikilvægt að hlúa áfram að starfi Norðurskautsráðsins og þeim árangri sem þar hefur náðst á liðnum árum, en Bandaríkin fara einmitt með formennsku í ráðinu fram til ársins 2017. Þá legg ég áherslu á mikilvægi jafnréttismála í samstarfi Norðurlandanna og Bandaríkjanna og hversu brýnt er að konur komi meira að stefnumótun og friðarumleitunum þar sem tölur og rannsóknir sýna að aðkoma kvenna hefur ótvíræð jákvæð áhrif" sagði Lilja jafnframt.
Utanríkisráðherra tók einnig þátt í fundi leiðtoga Norðurlandanna með Bandaríkjaforseta fyrr í dag, en forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, leiddi íslensku sendinefndina.