Hoppa yfir valmynd
13. maí 2016 Utanríkisráðuneytið

Samningalota TiSA 10.– 15. apríl 2016

Samningalota í TiSA-viðræðunum var haldin í Genf dagana 10. – 15. apríl 2016. Af Íslands hálfu tóku Martin Eyjólfsson, Þórður Jónsson og Bergþór Magnússon þátt í lotunni.

Í lotunni var m.a. fjallað um drög að viðaukum um fjármálaþjónustu, fjarskiptaþjónustu, för þjónustuveitenda, innlenda hlutdeild (localization), sjóflutninga, loftflutninga, farmflutninga, orkutengda þjónustu og rafræn viðskipti. Viðræðurnar gengu vel og tókst samningsaðilum að ná niðurstöðu um ýmis útistandandi atriði í fyrrgreindum samningstextum og þar með skapa forsendur til að ljúka viðræðum um þá á næstu mánuðum. Sett hafa verið markmið um að ljúka fyrir mitt árið samningaviðræðum um viðauka um fjármálaþjónustu fjarskiptaþjónustu, rafræn viðskipti, innlenda hlutdeild og för þjónstuveitenda, svo og um að ljúka viðræðunum í heild sinni fyrir lok þessa árs. Ekki er enn víst hvort þau markmið náist. 

Í lotunni voru jafnframt haldnir tvíhliða fundir milli einstakra ríkja í TiSA-viðræðunum til að ræða tilboð viðkomandi ríkja að skuldbindingaskrám, en í skránum setja einstök ríki fram skuldbindingar sínar um annars vegar markaðsaðgang erlendra þjónustuveitenda og hins vegar jafnræði milli innlendra og erlendra þjónustuveitenda. Ísland fundaði m.a. með Bandaríkjunum og Ástralíu í þessari lotu. Miðað er við að samningsaðilar leggi fram endurskoðuð tilboð að skuldbindingaskrá í fyrstu vikunni í maí. 

Næsta samningalota í TiSA-viðræðunum mun fara fram dagana 26. maí til 3. júní. Fyrirhugað er að auk umræðna um samningstexta einstakra viðauka verði í þeirri lotu rætt um svokölluð stofnanaákvæði, þ.á.m. ákvæði um lausn ágreiningsmála. Auk þess má gera ráð fyrir að nokkur tími muni fara í að yfirfara endurskoðuð tilboð samningsaðila.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta