Hoppa yfir valmynd
20. maí 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Landmælingar Íslands 60 ára

Landmælingar hafa lokið öllum fimm grænu skrefunum í ríkisrekstri.
Landmælingar hafa lokið öllum fimm grænu skrefunum í ríkisrekstri.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í dag 60 ára afmælisráðstefnu Landmælinga Íslands, sem haldin var á Akranesi. Yfirskrift ráðstefnunnar var Kortin vísa veginn.

Umfjöllunarefnið á ráðstefnunni var mikilvægi góðra korta og landupplýsinga í samfélaginu m.a. í tengslum við örnefni, leit og björgun, náttúruvá og ferðaþjónustu.

Í ávarpi sínu sagði ráðherra m.a. að mikilvægi Landmælinga Íslands væri af tvennum toga. „Annars vegar búum við í þessu landi, sem alltaf er að breytast, það teygist, lækkar og hækkar. Hér eru tíð eldgos sem breyta landi og við verðum vitni að aðstæðum eins og í Höfn í Hornafirði þar sem land er að lyftast. Hins vegar upplifum við nú gífurlegan fjölda ferðamanna sem vill sækja landið heim. Af þessum sökum þurfum við að kortleggja landið vandlega og undirbúa okkur betur fyrir það hvernig við miðlum upplýsingum um það.“

Þá afhenti ráðherra Magnúsi Guðmundssyni, forstjóra Landmælinga, viðurkenningu fyrir að stofnunin hefur lokið fimm grænum skrefum í ríkisrekstri, en þau votta innleiðingu vistvænna starfshátta hjá stofnunum ríkisins. Eru Landmælingar þriðja ríkisstofnunin sem lýkur öllum fimm skrefunum.

Eftir hádegi, að lokinni ráðstefnunni, buðu Landmælingar Íslands gestum og gangandi í opið hús stofnunarinnar þar sem starfsmenn tóku á móti áhugasömum og sögðu frá verkefnum sínum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta