Utanríkisráðherra sækir leiðtogafund um mannúðarmál í Istanbúl
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra verður fulltrúi Íslands á fyrsta leiðtogafundi sögunnar um mannúðarmál sem haldinn verður í Istanbúl í Tyrklandi á morgun. Alls sækja ráðstefnuna um sex þúsund fulltrúar frá ríkisstjórnum, alþjóðasamtökum, þróunarsamvinnustofnunum, borgarasamtökum og einkafyrirtækjum, þar af tæplega fimmtíu leiðtogar ríkja eða ríkisstjórna. Undirbúningur fundarins hefur staðið yfir í þrjú ár.
„Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum á sviði mannúðar- og neyðaraðstoðar. Flóttamannavandinn nú er einhver sá mesti í sögunni og tugir milljóna manna eru á flótta vegna ófriðar í heimalandi sínu, náttúruhamfara, sárrar fátæktar eða áhrifa loftlagsbreytinga. Það er mjög brýnt að þjóðir heims stilli saman sína strengi, rýni skipulag og þá aðferðafræði sem unnið er eftir með það að markmiði að ná betri árangri," segir utanríkisráðherra.
Á leiðtogafundinum í Istanbúl verður lögð áhersla á tengsl mannúðaraðstoðar, þróunarsamvinnu og friðaruppbyggingar, aukin framlög til neyðar- og mannúðarstofnana og ennfremur að bæta árangur og áreiðanleika þeirrar aðstoðar sem veitt er til nauðstaddra. Kallað er eftir því að ríki lýsi yfir stuðningi við ákveðnar aðgerðir eða skuldbindingar sem miða að því að skila raunverulegum árangri á sjö áherslusviðum sem skilgreind hafa verið fyrir fundinn.
Tvær megin skýrslur hafa verið unnar vegna leiðtogafundarins. Annars vegar skýrsla sérstakrar nefndar um fjármögnun mannúðaraðstoðar sem nefnist „Too important to fail – addressing the humanitarian financing gap“ og skýrsla Ban Ki-moon aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, „OneHumanity – Shared responsibility, Agenda for Humanity“.
Norrænir ráðherrar þróunarsamvinnu birtu grein 21. maí, í aðdraganda fundarins; Bregðumst af þunga við sívaxandi þörf fyrir mannúðaraðstoð