Hoppa yfir valmynd
25. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til fjögurra ára, ásamt skýrslu um stöðu og þróun í málefnum innflytjenda á helstu sviðum samfélagsins.

Framkvæmdaáætlunin er lögð fram í samræmi við lög um málefni innflytjenda nr. 116/2012 og er fyrsta áætlunin á þessu sviði sem lögð er fram samkvæmt lögum. Í gr. laganna kemur fram að framkvæmdaáætlunin skuli byggð á því meginmarkmiði laganna að stuðla að samfélagi þar sem allir geti verið virkir þátttakendur, óháð þjóðerni og uppruna. Því markmiði skuli náð, m.a. með því að:

  1. Hagsmunir innflytjenda séu samþættir allri stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera.
  2. Stuðla að víðtæku samstarfi og samþættingu aðgerða og verkefna milli allra aðila sem koma að málefnum innflytjenda.
  3. Efla fræðslu og miðlun upplýsinga um málefni innflytjenda og samfélag án fordóma.
  4. Stuðla að og styðja við rannsóknir og þróunarverkefni í málefnum innflytjenda.

Grunnurinn að framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda var unnin af innflytjendaráði vorið 2014. Byggt var á fjórum meginstoðum, þ.e.; samfélag, fjölskylda, menntun og vinnumarkaður. Í vinnuferlinu voru kallaðir til ýmsir sérfræðingar og fundir haldnir með skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, Þjóðskrá Íslands, Rannsóknum og greiningu, Capacent Gallup, Samtökum kvenna af erlendum uppruna, Fjölmenningarsetri, Hola, Projekt Polski, Vinnumálastofnun, Háskóla Íslands, Háskólasetri Vestfjarða og fleiri aðilum. Á síðari stigum var ákveðið að fjalla sérstaklega um flóttafólk í framkvæmdaáætluninni, í ljósi breyttra aðstæðna.

Framkvæmdaáætlunin er kaflaskipt í samræmi við framantaldar meginstoðir. Undir hverri þeirra er fjallað um aðgerðir, helstu markmið þeirra, hvernig framkvæmdinni skuli hagað og hverjir beri ábyrgð á að hrinda þeim í framkvæmd.

Áætlaður kostnaður við þær aðgerðir sem framkvæmdaáætlunin tekur til er samtals 100 milljónir króna, eða 25 milljónir króna á ári á gildistíma áætlunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta