Hoppa yfir valmynd
25. maí 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundað með þýskum þingmönnum

Frá heimsókn þýsku þingmannanna. - mynd

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis-og auðlindaráðherra, átti í gær fund með þingmönnum úr þýsk-norrænum vinahópi á þýska sambandsþinginu, Bundestag. Vinahópurinn var staddur hér á landi í vinnuheimsókn til að kynna sér m.a. jarðhita og loftslagsmál.

Ráðherra tók á móti þingmönnunum í Alþingishúsinu. Tilgangur fundarins var ekki síst að læra hvert af öðru og nefndu þingmennirnir að Ísland hefði þekkingu fram að færa s.s varðandi endurnýjanlega orku og sjálfbærni í fiskveiðum.

Á fundinum upplýsti ráðherra um vinnu sem lýtur að sjálfbærni á jarðhitasvæðum. Í undirbúningi er friðlýsing Kerlingarfjalla og eru fjórir orkukostir á svæðinu í verndarflokki rammaáætlunar. Í máli ráðherra koma fram að þar er vaxandi ferðaþjónusta og er ætlunin að stuðla að því að starfsemi innan svæðisins verði sem mest sjálfbær.

Loftslagsmálin voru ofarlega á baugi og spurðu þingmennirnir m.a. út í orkuskipti skipaflotans og farið var yfir sóknarfæri í að draga úr losun í sjávarútvegi.

Þingmennirnir voru áhugasamir um þekkingu Íslands varðandi nýtingu jarðhita í stað jarðefnaeldsneytis, sem er einn helsti áhrifavaldur loftslagsbreytinga. Ráðherra kynnti helstu þætti í sóknaráætlun í loftslagsmálum og sagði að auka þyrfti vitund núlifandi kynslóða um að tileinka sér loftslagsvænar lausnir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta