Hoppa yfir valmynd
25. maí 2016 Utanríkisráðuneytið

Losun fjármagnshafta rædd á fundi EES-ráðsins í Brussel

Unnur Orradóttir Ramette, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Bergdís Ellertsdóttir á fundi EES-ráðsins - mynd

Einfaldara regluverk og losun fjármagnshafta, var meðal þess sem Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra tók upp á EES-ráðsfundi sem haldinn var í Brussel í morgun. Fundinn sátu einnig utanríkisráðherra Liechtenstein, og Evrópumálaráðherra Noregs. Utanríkisráðherra Hollands stýrði fundi, en Holland fer með formennsku í Evrópusambandinu nú um stundir.

Aðalefni fundarins var staða og framkvæmd EES-samningsins og var rætt um aðgerðir EES-ríkjanna til að stuðla að hnökralausri upptöku gerða í samninginn og innleiðingu þeirra í landsrétt svo að tryggja megi eitt af grundvallarmarkmiðum EES samningsins um samræmda löggjöf og samsvarandi rétt einstaklinga og fyrirtækja á innri markaðnum. Í þessu samhengi vakti utanríkisráðherra sérstaka athygli á aðgerðum ríkisstjórnar Íslands varðandi losun fjármagnshafta. „Þarna gafst kærkomið tækifæri til að útlista þau skref sem ríkisstjórnin hefur tekið við losun fjármagnshaftanna og ferlið fram á við. Árangur Íslands vekur eftirtekt og allar efnahagshorfur gefa okkur fullt tilefni til bjartsýni, “ segir Lilja.

Ennfremur voru aðgerðir Evrópusambandsins til einföldunar á regluverki sambandsins til umfjöllunar, en sá hluti regluverksins sem snýr að innri markaðinum varðar EES-ríkin með beinum hætti. Lýsti utanríkisráðherra ánægju með aðgerðirnar. „Þetta er ánægjuefni. Enda þótt við njótum almennt góðs af samræmdum reglum innri markaðarins geta Evrópureglurnar á stundum verið flóknar fyrir fólk og fyrirtæki. Hér er reynt með markvissum hætti að koma í veg fyrir það, “ segir Lilja ennfremur.

Utanríkisráðherra sótti einnig reglubundið pólitískt samráð EES/EFTA-ríkjanna og ESB um utanríkismál þar sem rætt var um flóttamannavandann, ástand mála í Rússlandi og Úkraínu og heildstæða stefnu ESB í utanríkismálum þ.m.t. norðurslóðamál. Ennfremur var fundað með Elisabeth Aspaker Evrópumálaráðherra Noregs og Aureliu Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, í aðdraganda fundanna með ESB. Ásamt utanríkisráðherra sátu Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra í Brussel, og Unnur Orradóttir Ramette, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu fundinn fyrir Íslands hönd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta