Samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins skilar ráðherra tillögum
Í skýrslu samráðshópsins er að finna tölfræði frá lögreglu yfir fjölda kynferðisbrota, framvindu kærumála, hvers eðlis brot voru og um málmeðferðarhraða á árunum 2011-2015. Þá eru settar fram tillögur um aðgerðir á sex sviðum og þær flokkaðar í eftirfarandi kafla:
- Rannsóknir
- Ákæruvald
- Dómstólar
- Brotaþolar
- Sakborningar
- Forvarnir og fræðsla
Tillögur eru annars vegar um aðgerðir sem geta komið strax til framkvæmda og hins vegar aðgerðir sem kæmu til framkvæmda allt til ársins 2020. Lögð var áhersla á virkt samráð hópsins við aðila innan réttarvörslukerfisins, fræðasamfélagsins, grasrótar og annarra sem kynnu að hafa skoðun á meðferð kynferðisbrota. Því samráði er ekki lokið og mun formaður hópsins halda fundi með þeim fagaðilum, hópum og einstaklingum sem hagsmuni hafa að gæta í því skyni að kynna þessi fyrstu drög um aðgerðir sem snúa að málaflokknum, fá umræðu og tryggja þannig að sátt sé um lokaafurð hópsins.
Í samráðshópnum sitja:
- María Rut Kristinsdóttir, sérfræðingur og jafnframt formaður, tilnefnd af innanríkisráðherra,
- Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildarinnar, tilnefndur af embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,
- Brynjólfur Eyvindsson, héraðsdómslögmaður, tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands,
- Daði Kristjánsson, saksóknari, tilnefndur af Ríkissaksóknara,
- Eyrún B. Jónsdóttir, verkefnisstjóri Neyðarmóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss, tilnefnd af Neyðarmóttökunni,
- Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, tilnefnd af embætti héraðssaksóknara,
- Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, tilnefnd af embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,
- Sigríður Hjaltested, héraðsdómari tilnefnd af dómstólaráði.
Með samráðshópnum hafa starfað Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Hinrika Sandra Ingimundardóttir, lögfræðingur á skrifstofu almannaöryggis, Ragna Bjarnadóttir, lögfræðingur á skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga og Sunna Diðriksdóttir, ritari á skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga.