Lög um nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu
Samþykkt var á Alþingi í gær frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu. Lögin koma til framkvæmda 1. febrúar 2017. Alþingi lýsir vilja til þess að auka fjárframlög til að styrkja starfsemi heilsugæslunnar í nýju kerfi og draga úr útgjöldum sjúklinga.
Velferðarnefnd skilaði sameiginlegu áliti sínu ásamt breytingatillögum fyrir lokaumræðu um frumvarpið á Alþingi í gær. Eins og þar kemur fram var nefndin í öllum meginatriðum samþykk áherslum frumvarpsins. Það er aftur mat hennar að þörf sé á auknu fjármagni til að styrkja heilsugæsluna svo hún sé betur í stakk búin til að starfa í nýju kerfi. Einnig sé þörf fyrir aukið fé inn í nýja greiðsluþátttökukerfið til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga frá því sem ráðgert hefur verið miðað við drög að reglugerð um kerfisbreytingarnar. Í reglugerðardrögum hefur verið gert ráð fyrir að almennur notandi í nýju kerfi greiði að hámarki 95.200 kr. á ári fyrir heilbrigðisþjónustu en velferðarnefnd telur hæfilegt að hámarkið verði ekki hærra en 50.000 kr. á ári.
Velferðarnefnd fékk heilbrigðisráðherra til fundar við sig á lokastigum umfjöllunar nefndarinnar um frumvarpið til að ræða um fjárhagshlið þess. Ráðherra gerði þar grein fyrir áformum um styrkingu heilsugæslunnar í aðdraganda að gildistöku laganna, áformum um fjölgun lækna og hjúkrunarfræðinga og eflingu sálfræðiþjónustu. Jafnframt að gert sé ráð fyrir að setja aukna fjármuni inn í greiðsluþátttökukerfið til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga. Í áliti velferðarnefndar er þessu fagnað og segir þar að nefndin telji sig hafa fullvissu fyrir því að auknir fjármunir komi til í fjáraukalögum þessa árs og fjárlögum ársins 2017 í samræmi við áherslur sínar.
„Það er mikið fagnaðarefni að þetta frumvarp sé orðið að lögum og ég er þakklátur fyrir þá breiðu samstöðu sem náðist í þinginu um framgang málsins. Heilbrigðiskerfið mun styrkjast og sjúklingar verða varðir fyrir óhóflegum útgjöldum sem var algjörlega nauðsynlegt og löngu tímabært“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Í samræmi við breytingatillögu velferðarnefndar munu lög um nýtt greiðsluþátttökukerfi taka gildi 1. febrúar árið 2017 sem er nokkru síðar en upphaflega var áformað. Er horft til þess að ætla þurfi nokkur tíma til að hrinda í framkvæmd áformum um að styrkja heilsugæsluna, auk vinnu við uppfærslu hugbúnaðar og nauðsynlegar breytingar á stjórnvaldsfyrirmælum.