Glerárdalur friðlýstur sem fólkvangur
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði í gær friðlýsingu hluta Glerárdals á Akureyri. Um er að ræða 7.440 hektara svæði sem eftir friðlýsinguna er skilgreint sem fólkvangur.
Glerárdalur er mótaður af jöklum og einkennist berggrunnurinn af 10 milljón ára gömlum basalthraunlögum. Nálægð við forna megineldstöð veldur því að berggerðir eru fjölbreyttar á svæðinu auk þess sem steingerðar plöntuleifar, surtarbrandur og kísilrunninn trjáviður finnast á svæðinu. Gróðurfar í Glerárdal er fjölbreytt, bæði hvað varðar tegundir og gróðurlendi, en mólendi og votlendi setja svip sinn á dalinn.
Markmið friðlýsingarinnar er að vernda Glerárdal og aðliggjandi fjalllendi til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess land sem er að mestu ósnortið með fjölbreyttum jarðmyndunum og gróðurfari, og er þannig stuðlað að varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og breytileika jarðmyndana.
Rekstur fólkvangsins verður á höndum Akureyrarkaupstaðar en Umhverfisstofnun ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlunar í samráði við bæjaryfirvöld.
Við undirritunina í dag sagði ráðherra ánægjulegt að sveitarfélög láti til sín taka í náttúruverndarmálum, líkt og Akureyringar hafi gert varðandi friðlýsingu Glerárdals, en einhugur var í bæjarstjórn um friðlýsinguna. „Skammt er síðan farsæl niðurstaða náðist í endurskoðun Náttúruverndarlaga á Alþingi, en þau tóku gildi í nóvember síðastliðin. Þessi friðlýsing hér á Akrueyri í dag er fyrsta friðlýsing sem gerð er eftir gildistöku þeirra.“
Fyrir utan ráðherra voru viðstaddir athöfnina fulltrúar frá Akureyrarkaupstað sem og Umhverfisstofnun auk gesta.
Auglýsing um fólkvang í Glerárdal, Akureyrarkaupstað (pdf-skjal)