Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms um lokun flugbrautar
Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli Reykjavíkurborgar gegn íslenska ríkinu vegna norðaustur/suðvestur flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli þar sem staðfestur er dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. mars síðastliðnum um að innanríkisráðherra sé skylt að loka umræddri flugbraut og endurskoða skipulagsreglur vallarins til samræmis við lokun brautarinnar innan sextán vikna.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að dómi Hæstaréttar verði að sjálfsögðu unað. Ráðuneytið muni og ákveða hvernig rétt sé að bregðast við niðurstöðunni með það að leiðarljósi að tryggja áfram öryggi í flugsamgöngum innanlands.