Hoppa yfir valmynd
10. júní 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samningar við LBHÍ vegna sóknaráætlunar í loftslagsmálum undirritaðir

Samningarnir undirritaðir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og Björn Þorsteinsson, rektor LBHÍ, undirrituðu samningana. - mynd

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ), skrifuðu í dag undir tvo samninga um verkefni sem LBHÍ sinnir varðandi verkefni í sóknaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Annar samningurinn snýr að aðkomu LBHÍ að bókhaldi um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu koldíoxíðs í gróðri og jarðvegi. Hinn samningurinn snýr að upplýsingagjöf og greiningu LBHÍ fyrir vegvísi um minnkun losunar frá landbúnaði, sem unninn er í samvinnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands.

Landbúnaður og landnotkun hefur áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og á Íslandi, en einnig eru þar tækifæri til að binda koldíoxíð úr andrúmslofti með skógrækt, landgræðslu og fleiri aðgerðum. Skylda er að telja fram losun af þessu tagi í Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og heimilt er að telja sér til tekna tilteknar aðgerðir í kolefnisbindingu svk. ákvæðum Kýótó-bókunarinnar. Loftslagsbókhald tengt landbúnaði og landnotkun er um margt flóknara en fyrir aðra þætti, s.s. orkunotkun og iðnað og krefst góðrar vísindalegrar undirstöðu. Mikil þekking á þessu sviði er í LBHÍ, sem hefur gegnt lykilhlutverki í þessum þætti loftslagsbókhaldsins. Meðal annars hafa sérfræðingar hjá LBHÍ sýnt fram á mikla losun frá framræstu votlendi og á grundvelli þeirra rannsókna fékk Ísland samþykkt á vegum Kýótó-bókunarinnar að ríki gætu talið sér endurheimt votlendis til tekna.

Með sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar er ætlunin að styrkja þetta starf. Nú er unnið að því að útfæra reiknireglur og viðmið um losun og bindingu á vegum Parísarsamningsins, sem samþykktur var á síðasta ári og nær m.a. til losunarskuldbindinga ríkja eftir 2020, þegar gildistími Kýótó-bókunarinnar rennur út. Það skiptir Ísland miklu máli að hafa góðar upplýsingar um þátt landbúnaðar og landnotkunar í því starfi og er þess vænst að samningarnir við LBHÍ muni styrkja þessa mikilvægu stoð í stefnu Íslands í loftslagsmálum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta