Hoppa yfir valmynd
14. júní 2016 Dómsmálaráðuneytið

Samningur um rannsókn á stöðu flóttafólks og innflytjenda

Samningur unrirritaður 14. júní 2016. - mynd
Í dag var undirritaður samningur innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins við Háskóla Íslands um gerð heildstæðrar greiningar og mats á gæðum aðlögunar innflytjenda og flóttafólks að íslensku samfélagi.

Tilurð samstarfsins má m.a. rekja til skýrslu Ríkisendurskoðunar frá mars 2015 þar sem bent var á fjölmörg atriði sem þyrfti að endurskoða til að bæta lagaumhverfi, stjórnsýslu og skipulag að því er varðar málefni innflytjenda og flóttafólks. Með vísan til skýrslunnar var það mat félagsmálaráðherra og innanríkisráðherra að ráðast þyrfti í sameiginlegt verkefni á vegum Stjórnarráðsins til að skoða margvíslega þætti sem varða stjórnsýslu og þjónustu á þessu sviði og greina möguleika á úrbótum. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja tíu milljónir króna til verkefnisins.

Í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að ráðast í framangreint verkefni höfðu innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið samband við Háskóla Íslands um aðkomu skólans að verkinu. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands mun sjá um verkefnastjórnun með aðstoð stýrihóps. Til að greina sem flesta þætti sem snerta aðlögun flóttafólks verður leitað til fræðimanna frá mismunandi deildum skólans til að koma að rannsókninni og fá með þeim hætti heildstæða greiningu á þjónustu og aðstoð við innflytjendur og flóttafólk.

Rannsóknarverkefnið skiptist í eftirfarandi þætti:

  • Rannsókn á viðhorfum flóttafólks sem hlotið hefur alþjóðlega vernd hér á landi til þeirrar þjónustu og stuðnings sem það fær.
  • Rannsókn á viðhorfum félagsráðgjafa og annarra sem vinna að aðlögun flóttafólks að íslensku samfélagi.
  • Samanburður á þjónustu við flóttafólk hérlendis og á hinum Norðurlöndunum.
  • Lagaleg og stjórnsýsluleg aðgreining málefna útlendinga og innflytjenda - greining á umbótatækifærum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta