Hreyfiseðlar nýttir í meðferðarskyni um allt land
Innleiðingu hreyfiseðla um allt land er lokið. Hreyfiseðlum er nú ávísað í meðferðarskyni á öllum opinberum heilbrigðisstofnunum, sjúkrahúsum, stofnunum utan spítala, þ.e. á Reykjalundi og Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, hjá sjálfstætt starfandi sérfræðilæknum (sérstök áhersla er lögð á gigt-, geð-, öldrunar-, innkirtla-, lungna-, og hjartalækna) og hjá sjálfstætt starfandi heilsugæslulæknum. Notkun hreyfiseðla eykst hratt.
Hreyfiseðill er meðferðarúrræði sem læknir skrifar upp á í samráði við sjúkling og er ávísun á hreyfingu eftir forskrift. Sjúklingi er vísað til hreyfistjóra sem útbýr hreyfiáætlun í samráði við hann. Sjúklingurinn framfylgir áætluninni upp á eigin spýtur en undir eftirliti hreyfistjóra sem fylgist með árangri og meðferðarheldni. Sýnt hefur verið fram á að með markvissri hreyfingu megi draga úr lyfjanotkun, læknaheimsóknum og innlögnum. Markmið með innleiðingu hreyfiseðla er að taka upp gagnlega og hagkvæma meðferð við langvinnum sjúkdómum og stuðla að því að hreyfingu sé beitt á markvissari hátt til forvarna og meðferðar í heilbrigðisþjónustu.
Innleiðing hreyfiseðla hér á landi hófst sem tilraunaverkefni á fimm heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu í byrjun árs 2011. Í tengslum við áætlunina Betri heilbrigðisþjónusta 2013 – 2017 var tekin ákvörðun um að innleiða hreyfiseðla í heilbrigðisþjónustu um allt land. Skipuð var þriggja manna verkefnisstjórn til að annast innleiðinguna og veittar 50 m.kr. á ári til verkefnisins.
Lokaáfanginn í innleiðingu hreyfiseðla var að taka þá í notkun á Landspítala og lauk því í maí sl. Verkefnisstjórnin mun fylgja eftir innleiðingu og notkun hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu til loka þessa árs. Í því felst m.a. að greina hvar mest þörf er á hvatningu og fræðslu um notkun hreyfiseðla. Samstarf er við Embætti landlæknis um fræðslu og kynningu á hreyfiseðlum.
Tafla um þróun og fjölgun ávísaðra hreyfiseðla árin 2013 – 2014
Fjöldi | Konur | Karlar | Meðalaldur | Meðferðarheldni | Aukning | |
2013 | 264 | 178 | 86 | 49 | 64% | |
2014 | 606 | 383 | 223 | 48 | 69% | 230% |
2015 | 1017 | 676 | 341 | 48 | 66% | 60% |
1.04.´16 | 300 | 49 | 77% | 25% |