Aukin tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki með fríverslunarsamningi við Georgíu
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, undirritaði í dag fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og lýðveldisins Georgíu. Undirritunin fór fram á ráðherrafundi EFTA sem haldinn er í Bern í Sviss. Girogi Kvirikashvili, forsætisráðherra Georgíu, og Dimitry Kumsishvili, varaforsætis- og efnahagsráðherra landsins, undirrituðu samninginn fyrir hönd Georgíu.
Samningurinn tekur til vöruviðskipta, þjónustustarfsemi, fjárfestinga og opinberra innkaupa. Þá felur hann í sér gagnkvæma niðurfellingu tolla á iðnaðarvörum sem og aukin tollfríðindi fyrir tilteknar landbúnaðarvörur.
Nokkur íslensk fyrirtæki starfa í Georgíu eða hafa sinnt þar verkefnum. Þannig hafa Landsvirkjun Power og verkfræðistofan Verkís tekið þátt í ýmsum orkutengdum verkefnum frá árinu 2008, en miklir möguleikar eru til frekari virkjunar vatnsafls og jarðvarma í Georgíu. Þá er starfandi í Georgíu skrifstofa Creditinfo sem að hluta er í eigu CreditInfo á Íslandi, og makríll hefur verið fluttur frá Íslandi til Georgíu.
Með fríverslunarsamningnum skapast grundvöllur til að styrkja þessi samskipti og skapa ný tækifæri. Að samningnum undirrituðum ná fríverslunarsamningar EFTA til 37 landa utan samtakanna.
Á fundinum í Bern var fríverslunarviðræðum við Ekvador ýtt úr vör, auk þess sem til stendur að taka upp að nýju viðræður við Indland eftir rúmlega tveggja ára hlé. Jafnframt var farið yfir stöðuna í fríverslunarviðræðum EFTA við Malasíu, Indónesíu og Víetnam og rætt var um endurskoðun samninga við Chile, Kanada, Mexíkó og Tyrkland. Þá ríkti bjartsýni á að fríverslunarviðræður hæfust á næstunni við MERCOSUR-ríki Suður-Ameríku; Argentínu, Brasilíu, Úrugvæ, Paragvæ og Venesúela.