Undirritun tvísköttununarsamnings við Liechtenstein
Undirritaður hefur verið samningur milli Íslands og Liechtenstein um afnám tvísköttunar og koma í veg fyrir skattsvik og skattundanskot. Nær samningurinn til tekju- og eignaskatta. Undirritunin fór fram í Bern í Sviss og undirritaði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra samninginn fyrir hönd Íslands en Aurelia Frick utanríkisráðherra fyrir hönd Liechtenstein.
Helstu efnisatriði samningsins eru þau að enginn afdráttarskattur er af arði, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum, m.a. um 10% eignarhlutdeild í félaginu sem greiðir arðinn, móttakandi arðsins sé raunverulegur eigandi og að hann hafi átt hlutabréf í félaginu í a.m.k. eitt ár áður en arður er greiddur út. Að öðrum kosti er afdráttarskattur af arði 15%. Enginn afdráttarskattur er af vöxtum en 5% afdráttarskattur er af tilteknum þóknunum. Samkvæmt samningnum er frádráttaraðferð beitt í því skyni að koma í veg fyrir tvísköttun og einnig er að finna ákvæði um aðstoð við innheimtu skatta.
Framundan er vinna að fullgildingu samningsins í báðum samningsríkjum. Vonast er til að samningurinn geti komið til framkvæmda 1. janúar 2017.
Upplýsingaskiptasamningur við Liechtenstein hefur verið í gildi frá 1. janúar 2013.